Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka ákvarðanir um leiðakerfið í samráði við Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Við uppbyggingu leiðakerfis Strætó er leitast við að nýta fjármagn á sem hagkvæmastan hátt þannig að það nýtist sem flestum.


Hvað er Nýtt leiðanet?

„Nýtt leiðanet“ er framtíðarsýn um heildstætt leiðanet almenningssamganga með borgarlínuvögnum og hefðbundnum strætisvögnum. Grunn áherslur leiðanetsins snúast um aukna tíðni og styttri ferðatíma en í núverandi leiðakerfi Strætó.


Stofnleiðir og almennar leiðir

Leiðanetinu má skipta upp tvær tegundir leiða: stofnleiðir og almennar leiðir.

  • Stofnleiðir munu tengja stærstu hverfi höfuðborgarsvæðisins saman með mikilli tíðni og mynda þannig burðarásinn í leiðanetinu.  Stofnleiðir eru grunnurinn að borgarlínuleiðum framtíðarinnar og munu breytast í borgarlínuleið þegar sérakreinar hafa verið byggðar upp á að lágmarki helmingi leiðarinnar.
  • Almennar leiðir verða á minni tíðni en stofnleiðir og munu þjóna hverfum sem ekki eru í göngufæri við stöðvar stofnleiða.
Fyrstu hugmyndir að Nýju leiðaneti.
Fyrstu hugmyndir að Nýju leiðaneti.

Styttri ferðatími

Til að styrkja almenningssamgöngur og stytta ferðatíma eru eftirfarandi áherslur til staðar í Nýja leiðanetinu: Aukið sérrými og beinni leiðir.

Aukið sérrými

Í dag eru strætóakreinar samtals um 4 km á öllu höfuðborgarsvæðinu. Til að stytta ferðatíma, þá er mikilvægt að fjölga sérakreinum fyrir almenningssamgöngur. Því er uppbygging sérrýma Borgarlínunnar mjög mikilvægt skref í að bæta þjónustu Strætó. Nýja leiðanetið er hannað þannig að strætisvagnar og borgarlínuvagnar geti ekið inn og út úr sérrými og ferðast hluta leiðarinnar í blandaðri umferð.

Áætlað er að Nýtt leiðanet verði innleitt árið 2025 þegar fyrstu lotu borgarlínuframkvæmda er lokið. Þá munu fyrstu borgarlínuleiðirnar jafnframt hefja akstur sem hluti af Nýju leiðaneti. Óbrotnu lituðu línurnar tákna þá kafla sem leiðirnar aka í sérrými. Sérrýmið fyrstu lotu er um 14,5 km frá Hamraborg í Kópa­vogi um miðborg Reykjavíkur að Ártúnshöfða. Punktalínurnar tákna kafla þar sem leiðirnar aka í blandaðri umferð.


Beinni leiðar


Betri tíðni

Í dag aka flestar strætóleiðir á 15 mínútna fresti á annatímum en á 30 mínútna fresti utan annatíma. Það er mikilvægt að auka tíðni vagnanna til þess að gera þjónustuna þægilegri og aðgengilegri fyrir notendur.

Samkvæmt rannsóknum er aukin tíðni einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að ferðamátavali fólks.

Aukin tíðni:

  • Styttir biðtíma.
  • Eykur áreiðanleika.
  • Auðveldar skiptingar milli leiða sem opnar á nýjar tengingar milli mismunandi staða á höfuðborgarsvæðinu.

Sú aukna tíðni sem felst í Nýju leiðaneti mun því auka frelsi íbúa til að komast á milli staða þegar þeim hentar á skilvirkan og umhverfisvænan hátt.

Samkvæmt fyrstu hugmyndum Nýs leiðanets er gert ráð fyrir að tíðnin verði eftirfarandi:

Tíðni í Nýju leiðaneti
Stofnleiðir7-10 mín fresti15-20 mín fresti
Almennar leiðir15 mín fresti20-30 mín fresti

Tímalína

Fyrsta áfangaskýrsla um Nýtt leiðanet var gefin út í desember 2019.

Nú stendur yfir valkostagreining og úrvinnsla úr samráði við almenning og hagaðila. Eftir að þeirri úrvinnslu er lokið verður formlega lögð fram fyrsta tillaga að nýju leiðaneti. Eftir að fyrstu tillögur hafa verið kynntar er áætlað að hefja annað samráð seinni hluta árs 2021.

Áætlað er að undirbúningur að Nýja leiðanetinu ásamt framkvæmdum við innviði fyrstu lotu Borgarlínunnar muni eiga sér stað árin mun 2022-2025 og munu þá fyrstu borgarlínuleiðirnar hefja akstur. Einhverjar smærri breytingar í ákveðnum hverfum gætu þó verið innleiddar fyrr.


Faghópur um leiðakerfismál

Faghópur um leiðakerfismál var skipaður af stjórn Strætó í febrúar 2019.

Sæti í faghópnum eiga:

  • Fulltrúar úr leiðakerfi Strætó
  • Fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu
  • Fulltrúi Vegagerðarinnar
  • Fulltrúi Samtaka um bíllausan lífsstíl
  • Fulltrúi Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins