Strætó bs. er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu sem stofnað var í samræmi við ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um samvinnu sveitarfélaga við framkvæmd einstakra verkefna. Meginhlutverk Strætó er að starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna.


Sú vinnsla persónuupplýsinga sem fer fram eða á vegum Strætó er á ábyrgð Strætó bs., kt. 500501-3160, Hesthálsi 14, 110 Reykjavík. Í þeim tilvikum þar sem Strætó starfar sem vinnsluaðili á vegum annars aðila ber sá aðili ábyrgð á vinnslunni sem ábyrgðaraðili í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (persónuverndarlög), og starfar Strætó þá samkvæmt fyrirmælum hans á grundvelli vinnslusamnings.

Strætó hefur það að markmiði að tryggja í hvívetna áreiðanleika, trúnað og öryggi allra persónuupplýsinga sem unnið er með á vegum fyrirtækisins. Strætó hefur því sett sér svohljóðandi persónuverndarstefnu, í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.