Hér má nálgast reglur og skilmála í Strætó.


1. Fargjöld

KLAPP er rafrænt greiðslukerfi fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að greiða fargjöld með þremur miðlum: KLAPP korti, KLAPP appi og KLAPP tíu.

1.1 KLAPP kort

  • KLAPP kort eru snjallkort sem lagt er upp við skanna um borð í Strætó þegar fargjaldið er greitt.
  • Fyllt er á KLAPP kortið í gegnum vefsvæði viðskiptavina á „Mínum síðum“ inn á klappid.is.
  • Stakir miðar eða tímabilskort á KLAPP korti  virkjast þegar kortið er borið upp að skanna um borð í vagninum og skanni gefur til kynna að búið sé að lesa kort.
  • Stakur miði gildir í 75 mínútur frá fyrstu virkjun,
  • Fyrsti dagur tímabilskorta verður virkur frá þeim tíma sem kortið er skannað.

1.2 KLAPP app

  • KLAPP appið er aðgengilegt inn á App Store og Google Play.
  • Með KLAPP appinu geta viðskiptavinir notað snjallsímann sinn til að kaupa staka miða eða tímabilskort fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu.
  • Það er einnig hægt að fylla á appið í gegnum vefsvæði viðskiptavina á „Mínum síðum“ inn á klappid.is.
  • Stakur miði eða tímabilskort í KLAPP-appi virkjast þegar viðskiptavinur velur “Virkja miða” í appinu.
  • Stakur miði gildir í 75 mínútur frá því að miði er virkjaður.
  • Gildistími tímabilskorta byrjar að telja niður frá þeim tíma sem kortið er virkjað í appinu.

Sjá ítarlegri skilmála KLAPP appsins í kafla 2.

1.3 KLAPP tía

  • KLAPP tía er spjald með 10 fargjöldum fyrir fullorðna, ungmenni eða aldraða.
  • Spjaldið er með kóða sem skannaður er um borð í vagninum. Skjár skannans sýnir viðskiptavini hve margar ferðir eru eftir á spjaldinu.
  • Stakur miði virkjast um leið og kóðinn á spjaldinu er skannaður og skanninn gefur til kynna að búið sé að lesa spjaldið.
  • Stakur miði gildir í 75 mínútur frá því að miði er virkjaður.
  • Ekki er hægt að setja nýja farmiða inn á KLAPP tíu.

1.4 Afsláttarfargjöld

Afsláttarfargjöld eru í boði fyrir eftirfarandi hópa:

  • Ungmenni, 12-17 ára.
  • Aldraðir (67 ára og eldri)
  • Öryrkjar. (Nauðsynlegt að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum)
  • Nemar 18 ára og eldri. (Nauðsynlegt að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum)

Börn 6-11 ára fá frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu.

1.5 Gamla greiðslukerfið, skiptimiðar og reiðufé

Til staðgreiddra fargjalda teljast annars vegar mynt og seðlar og hins vegar farmiðar.

Frá og með 1. mars 2022, þá verður ekki hægt að greiða með gömlu farmiðunum um borð í Strætó. Gefinn verður frestur til 16. mars 2022 til þess að skipta öllum gömlum farmiðum yfir í inneign í KLAPP greiðslukerfinu.

Skiptimiði sem tekinn er til að halda ferð áfram yfir í annan eða þriðja vagn telst til farmiða. Farmiði gildir aðeins í eitt skipti og skiptimiði aðeins innan þeirra tímatakmarka sem skráð eru á hann. Staðgreitt fargjald er sett í peningabaukinn þegar stigið er inn í vagninn en skiptimiði er sýndur vagnstjóra þegar stigið er inn í vagninn. Greitt gjald skal vera uppsett verð hverju sinni þar sem vagnstjórar gefa ekki til baka.

Handhafar tímabilskorta í gamla greiðslukerfi Strætó skulu leyfa gildistíma kortanna að renna út áður en skipt er yfir í KLAPP greiðslukerfið.

1.6 Staðfesting á notkun afsláttarfargjalds og gjaldsvæða

Vagnstjóri og/eða eftirlitsmaður getur óskað eftir því að farþegi staðfesti rétt sinn til að nota afsláttarfargjald.

Farþegi skal ávallt gæta þess að gefa vagnstjóra eða eftirlitsmanni tækifæri til að sannreyna að rétt fargjald sé reitt af hendi.

1.7 Þegar ferðast er milli gjaldsvæða?

KLAPP greiðslukerfið er ekki notað í Strætó á landsbyggðinni. Í landsbyggðarvögnum er hægt að greiða fyrir ferð með debit- eða kreditkorti, strætómiðum eða reiðufé.

Farþegi greiðir fargjald fyrir hvert það gjaldsvæði sem hann fer yfir. Ætli hann að ferðast um þrjú gjaldsvæði greiðir hann þrefalt fargjald. Ef ferðast er um fjögur gjaldsvæði greiðir hann fjórfalt fargjald og svo koll af kolli.


2. KLAPP appið

2.1 KLAPP appinu er hægt að nota í tækjum sem styðjast við Apple eða Android stýrikerfi (hér eftir nefnd snjalltæki). Fargjöld sem keypt eru í KLAPP appinu gilda einungis á höfuðborgarsvæðinu.

2.2 Strætó bs. kt. 500501-3160, (hér eftir nefnt Strætó) er eigandi KLAPP appsins.

2.3 Hægt er að velja á milli þess að skrá sig inn í appið með símanúmeri eða með nafnlausri innskráningu. Nafnlaus innskráning er á ábyrgð notanda og tapist aðgangurinn eða snjalltækið glatast allir miðar og/eða tímabilskort og fást ekki bættir. Með innskráningu með símanúmeri tryggir notandi að miðar og/eða tímabilskort séu ávallt skráð á það símanúmer og glatast því ekki.

2.4 Stakt fargjald (miði) sem keypt er með snjalltæki eða notað með snjalltæki er gilt frá því það er virkjað og gildir í þann tíma sem Strætó tilgreinir hverju sinni (75 mínútur) sem þó er aldrei skemmri en gildi skiptimiða. Mánaðaráskrift gildir í einn mánuð í senn og tekur gildi samstundis og kaup hafa átt sér stað. Tímabilskort sem send eru í KLAPP appinu virkjast við fyrstu noktun í strætó.

2.5 Snjalltæki þarf nettengingu þegar vara er keypt. Snjalltæki þarf einnig nettengingu, nægilegt rafhlöðulíf og óbrotinn skjá þar sem kóðinn birtist þegar vara er virkjuð og skönnuð um borð í vagni. Nettengingin, nægilegt rafhlöðulíf og ástand skjás á meðan vara er í notkun er á ábyrgð handhafa.

2.6 Ekki er leyfilegt að stíga um borð í Strætó án þess að hafa virkjaðan miða eða tímabilskort í appinu eða aðra gilda greiðslu. Vagnstjóra og eftirlitsmönnum Strætó er heimilt að krefjast staðfestingar á forsendum farþega fyrir að greiða með afsláttargjaldi.

2.7 Ekki er hægt að fá skiptimiða þegar greitt er með miða í KLAPP appinu, hvort sem er fyrir handhafa viðkomandi snjalltækis eða aðra sem ferðast með honum á sama miða.

2.8 Afritun eða fölsun á miðum í KLAPP appinu er ólögleg og verða þeir sem staðnir eru að notkun falsaðra miða eða korta kærðir til lögreglu.

2.9 Ef miði eða tímabilskort er sent á annað símanúmer er varan eingöngu nothæf á því númeri sem sent er á og færist af snjalltæki sendanda.

2.10 Leyfilegt er að senda tímabilskort tvisvar í hverjum mánuði á milli snjalltækja sama notanda.

2.11 Fargjöld í KLAPP appinu eru borin upp að skanna við inngang strætisvagns þegar viðskiptavinur stígur um borð í strætó. Varan skal vera virkjuð áður en stigið er um borð í vagninn.

2.12 Eftirlitsmönnum Strætó og vagnstjórum er heimilt að afla frekari staðfestingar frá handhafa um viðkomandi vöru, til dæmis með því að óska eftir því við handhafa fargjalds að hann sýni aðra virkni appsins eða sýni á annan hátt að um gilt app sé að ræða. Sama gildir um staðfestingu á tímabilskortum og rétt viðskiptavinar til að nota afsláttarfargjald.

2.13 Hægt er að greiða fyrir vörur í KLAPP appinu með kredit- og debetkortum, nánar tiltekið VISA, MasterCard, VISA Electron og Maestro.

2.14 Andvirði keyptrar vöru er gjaldfært af korti viðskiptavinar þegar varan er send á snjalltækið. Hægt er að virkja miðann eða tímabilskort síðar.

2.15 Þegar keypt eru fleiri en eitt fargjald í einu í KLAPP appinu velur notandinn hvort um sé að ræða x fjölda af stökum miðum eða stakan miða fyrir x marga farþega (hópamiða)

2.16 Þegar hópamiði er virkjaður í KLAPP appinu virkjast öll fargjöld hópamiðans samtímis.

2.17 Þegar greiðslukort er skráð í þjónustu KLAPP appsins er því varpað yfir í sýndarnúmer hjá vefþjónustu greiðslumiðlunarfyrirtækis (SALT PAY). Greiðslukortanúmer eru því vistuð á öruggu svæði hjá greiðslumiðlun. Strætó ber ekki ábyrgð á kortaupplýsingum sem sendar eru greiðslumiðlun í gegnum appið.

2.18 Greiðsla stakra fargjalda og tímabilskorta er óendurkræf og ekki er hægt að breyta greiddum fargjöldum í appinu.

2.19 Gjaldtaka af greiðslukorti vegna keyptra snjallmiða og tímabilskorta fer fram samkvæmt gjaldskrá Strætó á hverjum tíma.

2.20 Óski viðskiptavinur eftir því að segja upp tímabilskorti er hægt að gera það hvenær sem er yfir mánuðinn án þess að það hafi áhrif á gildistíma vörunnar sem búið er að greiða fyrir.

2.21 Strætó áskilur sér rétt til að senda notendum appsins tilkynningar með skilaboðum í gegnum Klappið um efni sem varðar þjónustu Strætó og KLAPP.

2.22 Strætó áskilur sér rétt til að loka fyrirvaralaust á tiltekið símanúmer/snjalltæki ef ástæða er til að ætla að notandi KLAPP appsins misnoti þjónustuna eða hafi gefið upp rangar upplýsingar við skráningu.


3. Mínar síður

3.1 Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir „Mínar síður“ á Klappid.is, þjónustusíðu KLAPP. Sá sem stofnar aðgang á „Mínum síðum“ skuldbindur sig til að hlíta þeim skilmálum er Strætó bs. setur um notkun þjónustusíðunnar.

3.2 Eiganda aðgangs er einum heimilt að nota aðgang sinn að Mínum síðum. Honum er með öllu óheimilt að afhenda lykilorð sitt þriðja aðila til afnota. Afhendi áskrifandi þriðja aðila upplýsingar, lykilorð og/eða notendanafn sitt er áskrifandi að fullu ábyrgur fyrir slíkri afhendingu og afleiðingum hennar.

3.3 Upplýsingum um notkun á „Mínum síðum“ er einungis ætlað að vera til upplýsingar fyrir eiganda aðgangsins. Strætó bs. ber ekki ábyrgð á því tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna notkunar á þjónustusíðu KLAPP, „Mínar síður“.

3.4 Strætó bs. ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda viðskiptavinum í tengslum við notkun þeirra á Mínum síðum.

3.5 Eiganda aðgangs er heimilt að eyða aðgangi sínum hvenær sem er. Við eyðingu aðgangs er öllum persónuupplýsingum eytt, upplýsingar í þjónustukerfi KLAPP og viðskiptasaga eru gerð ópersónugreinanleg.

3.6 Aðgangar sem standa óhreyfðir í fjögur ár samfleytt er sjálfkrafa eytt. Við eyðingu aðgangs er öllum persónuupplýsingum eytt, upplýsingar í þjónustukerfi KLAPP og viðskiptasaga eru gerð ópersónugreinanleg.


4. KLAPP Veskið

4.1 Lágmarksupphæð áfyllingar á Klapp veskið er 1.000 krónur.

4.2 Strætó bs ákveður hámarks inneign sem eigandi Klapp aðgangs getur haft á veskinu hverju sinni

  • Hámarksinneign á Klapp veski er 80.000 krónur (Gildir frá og með 01.04.2021)
  • Í tilfellum þar sem að beiðni um áfyllingu mun hafa í för með sér að inneign á veski mun fara umfram hámarksinneign þá fer skuldfærsla ekki fram

4.3 Ef inneign á KLAPP veski er lægri en sem nemur verði staks fargjalds í Strætó hverju sinni fær viðskiptavinur höfnun við skanna um borð í strætisvagni og getur ekki notað KLAPP greiðslumiðil (Kort eða App) fyrr en viðkomandi er búinn að tryggja að næg inneign sé til staðar á viðkomandi greiðslumiðli.

4.4 Ónotuð inneign á Klapp veski fyrnist að fjórum árum liðnum.


5. Sjálfvirk áfylling

5.1 Eigandi KLAPP aðgangs getur virkjað sjálfvirka áfyllingu á Veskinu inn á mínum síðum á Klappid.is.

5.2 Til að virkja sjálfvirka áfyllingu þarf viðskiptavinur að vera með skráð virkt greiðslukort á KLAPP aðganginum

  • Hægt er að skrá Visa, MasterCard, Maestro, Visa debet og MasterCard kort fyrir sjálfvirka áfyllingu.

5.3 Korthafi ber ábyrgð á því að kortaupplýsingar séu rétt skráðar og næg heimild sé á korti eða reikningi til að skuldfærsla sjálfvirkrar áfyllingar sé samþykkt á KLAPP aðgangi.

5.4 Eigandi KLAPP aðgangs velur sjálfur hver lágmarks inneign skuli vera á Veski áður en sjálfvirk áfylling á sér stað

  • Lágmarksinneign getur aldrei verið lægri en sem nemur stöku almennu fargjaldi í Strætó (upphæð tekur mið af gildri gjaldskrá Strætó að hverju sinni).

5.5 Eigandi KLAPP aðgangs ákveður upphæð sjálfvirkrar áfyllingar þegar sjálfvirk áfylling er virkjuð á Mínum síðum.

  • Upphæð sjálfvirkar áfyllingar getur aldrei verið lægri en 1.500 krónur eða hærri en 25.000 krónur.
  • Eigandi KLAPP aðgangs getur alltaf breytt upphæð sjálfvirkrar áfyllingar undir stillingum á Mínum síðum.

5.6 Eigandi KLAPP aðgangs getur af virkjað sjálfvirka endurnýjun hvenær sem er inni á Mínum síðum á klappid.is.

  • Eigandi KLAPP aðgangs með sjálfvirka áfyllingu ber ábyrgð á að slökkva á sjálfvirkri áfyllingu ef grunur leikur um misnotkun á upplýsingum eða inneign á reikningi.

5.7 Strætó áskilur sér rétt að breyta eftirfarandi viðmiðum:

  • Lágmarks upphæð sjálfvirkrar áfyllingar
  • Hámarks upphæð sjálfvirkrar áfyllingar
  • Lágmarks inneign á Veski
  • Hámarks inneign á Veski

6. Endurnýjun og endurgreiðslur

6.1 Ef KLAPP kort týnist, er stolið, brotnar eða skemmist þá getur skráður handhafi kortsins lokað kortinu og keypt nýtt kort í gegnum Mínar síður. Notandi getur síðan fært inneign af gamla klapp kortinu yfir á nýtt KLAPP kort. Ekki er hægt að óska eftir nýju 10 miða handhafakortum sem týnast, er stolið eða skemmast.

6.2 Ef að KLAPP kort sem er skráð með sjálfvirka áfyllingu týnist, er stolið, brotnar eða skemmist þá verður nýtt kort ekki sjálfkrafa skráð í sjálfvirka áfyllingu. Viðskiptavinur þarf sjálfur að skrá nýja kortið sitt í sjálfvirka áfyllingu inn á „Mínum síðum“.

6.3 Handhafi KLAPP korts getur gert athugasemd við færslur og óskað eftir endurgreiðslu inn á „Mínum síðum“. Strætó bs. áskilur sér rétt til að rannsaka tilteknar færslur nánar áður en ákvörðun er tekin um endurgreiðslu. Kort sem eru ekki með skráða handhafa eru óendurkræf.

6.4 KLAPP kort sem hafa verið óvirk í meira en 24 mánuði er sjálfkrafa lokað og eftirstöðvar kortanna munu leggjast inn á góðgerðar reikning Strætó.

6.5 Endurgreiðslur og endurnýjanir geta verið háðar umsýslugjaldi skv. gjaldskrá Strætó bs.

6.6 Allar deilur eru háðar yfirferð og samþykki Strætó bs. Strætó bs. getur óskað eftir viðbótargögnum eða sönnunargögnum frá viðskiptavini áður en ákvörðun er tekin. Viðskiptavinur KLAPP verður að tilkynna Strætó bs. um ágreining um viðskiptafærslur innan 30 dögum frá dagsetningu slíkra viðskipta.

6.7 Ef strætókort úr gamla greiðslukerfinu týnist eða brotnar, þá þarf viðskiptavinur að færa sig yfir í KLAPP greiðslukerfið.


7. Persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga

7.1 Í tengslum við notkun á þjónustu skv. skilmálum þessum, og í samskiptum við Strætó, vinnur Strætó með persónuupplýsingar um einstaklinga, eins og nánar er lýst í persónuverndarstefnu KLAPP sem nálgast má hér:


8. Reglur um borð

Á meðan á ferð stendur eru farþegar skuldbundnir að hlíta fyrirmælum vagnstjóra.

Telji vagnstjóri og/eða eftirlitsmaður að rétt fargjald hafi ekki verið innt af hendi eða gróflega gengið gegn framangreindum tilmælum kann það að leiða til þess að farþega verði vísað úr vagninum.

Brjóti farþegar almennar viðurkenndar hátternisreglur eða sýna að öðru leyti af sér óæskilega framkomu í vögnum Strætó gagnavart öðrum farþegum ellegar vagnstjóra kann það að leiða til þess að farþega verði vísað úr vagningum.

Farþegar skulu sýna hver öðrum gagnkvæma tillitssemi og kurteisi á meðan á ferð stendur.

Heimilt er að taka með sér farangur um borð í Strætó, en miðað er við að farþegi geti borið farangurinn um borð eða sett í farangursgeymslu landsbyggðarvagns einn síns liðs. Strætó ber ekki ábyrgð á farangri farþega hvorki í farþegarými né í farangursgeymslu nema ef slys, óhapp eða annar ófyrirséður atburður á sér stað.

  • Vagnastjóra er heimilt að synja farþega um flutning á varningi eða farangri sem fyrirfram má ætla að hafi áhrif á líðan eða heilsu annarra farþega á meðan á ferð stendur, t.d. vegna lyktar, hávaða eða stærðar.
  • Óheimilt er að ferðast með gæludýr í landsbyggðarvögnum Strætó.
  • Óheimilt er að ferðast með sprengiefni, eldfim efni, íðefni og eiturefni.
  • Óheimilt er að ferðast með byssur, skotvopn og vopn í farþegarými. Heimilt er að ferðast með byssur, skotvopn og vopn gegn því að þau séu geymd í farangursgeymslu landsbyggðarvagna meðan á ferð stendur.  Ef ferðast er með skotvopn skal skotvopnið vera óhlaðið. Engin skotfæri mega vera í sömu tösku og skotvopnið. Skotfærin skulu vera pökkuð í umbúðir þar sem ytra byrðið er úr tré, áli eða trefjaplasti. Innra byrðið skal vera höggþétt og geta varið fyrir óvæntum hreyfingum og gengið svo frá að skotfærin geti ekki skapað hættu vegna óhappa í flutningi.
  • Heimilt er að ferðast með reiðhjól, barnavagna og barnakerrur í vögnum strætó, meðan rými leyfir.Barnavagnar og hjólastólar hafa forgang og geta hjólreiðamenn þá átt það á hættu að vera vísað úr vagninum með hjól sín. Ef ekki er pláss fyrir hjólið þegar vagn­ar eða hjóla­stól­ar koma inn fá hjólreiðamenn skiptimiða og geta tekið næstu ferð á eftir.
    • Stærstu leiðirnar á landsbyggðinni eru með hjólagrind aftan á vögnunum þar sem er pláss fyrir 3-4 reiðhjól. Einnig er hægt að koma fyrir samanbrotnum reiðhjólum í farangursgeymslu ef pláss leyfir.
    • Leiðir á landsbyggðinni sem notast við smærri rútur eru ekki með hjólagrindur en leyfilegt er að koma hjólum fyrir í farangursgeymslu eða farþegarými ef pláss og aðstæður leyfa.
    • Leið 55, sem ekur milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar (Keflavíkurflugvallar), er ekki með hjólagrind. Heimilt er að taka reiðhjól í vagninn ef farþegi er tilbúinn með það samanbrotið þegar vagninn kemur og ef pláss og aðstæður leyfa.
  • Heimilt er að neyta matar og drykkja um borð í vögnunum, en gæta þarf almenns hreinlætis og snyrtimennsku.

Telji vagnstjóri og/eða eftirlitsmaður að rétt fargjald hafi ekki verið innt af hendi eða gróflega gengið gegn framangreindum tilmælum kann það að leiða til þess að farþega verði vísað úr vagninum.


9. Ferðareglur fyrir börn - aldurstakmark

Börn sem ferðast með Strætó eru á ábyrgð foreldra og forráðamanna. Þeim aðilum sem hyggjast senda börn sín ein með vagni, sérstaklega í lengri ferðir á landsbyggðinni, er bent á að kynna sér tilmæli Umboðsmanns barna og hafa í huga að leggja ekki óæskilega ábyrgð á herðar barnsins. Þá er bent á að í mörgum tilfellum eru reglur þannig að við 15 ára aldur er barni veitt aukin ábyrgð, þ.m.t. sú ábyrgð að gæta annarra barna, sjá m.a. hér

Þá vekur Strætó sérstaka athygli á 92. gr. Barnaverndalaga um útivistartíma barna.

Afar mikilvægt er að börnin séu vel undirbúin fyrir ferðalagið af forráðamönnum sínum:

  • Að börn viti nákvæmlega hvar þau eigi að fara út eða skipta um bíl.
  • Að börn séu upplýst og meðvituð um að yfirgefa ekki vagninn nema ef biðtími vagns er lengri en 10 mínútur á stoppistöð eða ef skipta þarf um vagn á leiðinni.
  • Að það sé tryggt að börn séu sótt á áfangastað.
  • Að börn sitji eins framarlega í vagninum og unnt er.
  • Að börn hafi farsíma meðferðis, ef mögulegt er, með helstu númerum forráðamanna.

Börn 6 ára og eldri mega ferðast ein með Strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Börn, 10 ára og yngri, hafa ekki leyfi til að ferðast ein með Strætó á landsbyggðinni. Börn 10 ára og yngri verða að hafa ferðafélaga alla leið á áfangastað sem er 15 ára eða eldri.

Börn sem eru of ung til að ferðast ein, 10 ára og yngri, og eru ekki í fylgd með eldra barni eða fullorðnum verður ekki hleypt inn í vagninn.

Strætó ber ekki ábyrgð á börnum í vögnunum sínum, þar með talið hvort þau fari inn eða út á tilgreindum stað. Börn sem ferðast með Strætó eru á ábyrgð forráðamanna sinna.


10. Seinkun eða aflýsing ferða

Um akstur vagna Strætó fer samkvæmt gildandi tímatöflum hverju sinni.

Strætó áskilur sér rétt til að aflýsa ferðum og/eða gera breytingar á þeim vegna óviðráðanlegra orsaka sem Strætó fær engu um ráðið, t.d. slæmra veðurskilyrða, verkfalla og þess háttar.

Strætó ber skaðabótaábyrgð á farþegum, farangri og handfarangri ef tjónið verður rakið til saknæmrar háttsemi vagnstjóra.

Strætó ber ekki ábyrgð á niðurfellingu ferðar eða tafa vegna óviðráðanlegra orsaka sem Strætó ræður ekki við.

Strætó ber ekki ábyrgð á beinum eða óbeinum kostnaði eða tjóni sem farþegi verður fyrir ef ferð er felld niður eða seinkar af óviðráðanlegum orsökum.

Strætó er heimilt að færa farangur sem skilinn er eftir í vögnum félagsins í geymslu á kostnað, ábyrgð og áhættu farþega eða eiganda.

Ef ferð er aflýst eða brottför seinkar á farþegi rétt á því að fá upplýsingar um stöðu mála um leið og hún er ljós, þ.m.t. nýja brottfara- og komutíma. Upplýsingar má nálgast í gegnum tilkynningar á heimasíðu Strætó, í Klappinu eða á Twittersíðu Strætó.

Ef landsbyggðarvagn verður veðurtepptur á miðri leið eiga farþegar rétt á að fá eftirstöðvar fargjaldsins endurgreiddar eða fá far með næsta vagni þegar tækifæri gefst. Farþegi gæti þurft að sýna kvittun til staðfestingar á keyptu fargjaldi. Ef farþegar verða veðurtepptir yfir nótt ber Strætó ábyrgð á að útvega farþegum gistingu á hóteli eða gistiheimili. Almenna reglan er sú að farþegar bíði á gististað eftir næstu áætluðu ferð samkvæmt. tímatöflu Strætó nema sérstakar aðstæður eða undantekningar kalli á önnur viðbrögð.


11. Slys, tjón og óhöpp

Farþegar um borð í Strætó eru tryggðir.

Ef farþegi verður fyrir óhappi í vagni skal láta vagnstjóra vita, hafi hann ekki orðið þess var. Framhald málsins ræðst af alvarleika þess, t.d. hvort kalla þurfi til sjúkrabíl og lögreglu, eða það verði tilkynnt til farþegaþjónustu Strætó sem hefur með eftirfylgni slíkra mála að gera.

Verkefnastjóri í farþegaþjónustu er Sigurður Grétar Ólafsson sem svarar fyrirspurnum í síma 540 2700 eða í gegnum tölvupóst á sgo@straeto.is

Árekstrar

Ef ökutæki lendir í árekstri við strætisvagn þá er venjan að ökumenn beggja ökutækja fylli út tjónatilkynningu á staðnum eða kalli til lögreglu ef um stærri tjón eða slys á fólki er að ræða.


12. Persónuvernd

Strætó leggur ríka áherslu á persónuvernd og skuldbindur sig til þess að vinnsla og varðveisla þeirra persónuupplýsinga sem viðskiptavinir láta Strætó í té sé í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og persónuverndarstefnu Strætó.


13. Breytingar

Strætó áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum, gjaldskrám og áætlunum hvenær sem er þó að undangengnum tilkynningum og auglýsingum á heimasíðu félagsins og eftir atvikum í fjölmiðlum.


14. Lögsaga

Rísi ágreiningur milli Strætó og farþega um veitta þjónustu skulu aðilar leitast við að jafna hann. Takist það ekki skal hann rekinn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.


15. Gildistaka

Skilmálar þessir öðlast gildi frá og með 16. janúar 2019 og skulu gilda um alla flutninga á farþegum og farangri með Strætó bs.


Skilgreiningar

  • Strætó eða félagið þýðir Strætó bs. kt. 500501-3160, Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.
  • Farþegi merkir hvern þann einstakling sem greiðir fyrir flutning með vögnum Strætó.
  • Fargjald er annars vegar staðgreitt (reiðufé, app og farmiðar) og hins vegar kort, ýmist tímabils-eða árskort.
  • Farangur þýðir sérhver hlutur sem fluttur er með vögnum Strætó hvort heldur sem er í tengslum við farþegaflutning.
  • Handfarangur þýðir farangur sem farþegi hefur í vörslu sinni á meðan á ferð hans stendur í vögnum Strætó.