Fyrirtæki hafa í æ ríkari mæli lagt áherslu á umhverfismál og umhverfisvernd sem lið í samfélagslegri ábyrg. Færst hefur í vöxt að fyrirtæki móti sér samgöngustefnu þar sem starfsfólk er hvatt til að tileinka sér vistvænar samgöngur með það að leiðarljósi að efla lýðheilsu starfsmanna, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr kostnaði við eignarhald og viðhald bílastæða og stuðla að bættri landnýtingu.
Með útgáfu sérstakra Samgöngukorta vill Strætó bs. sýna sína ábyrgð í verki með því að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem vilja hvetja starfsfólk sitt til að nýta sér vistvænan samgöngumáta.
Strætó bs. og viðkomandi fyrirtæki gera því með sér svohljóðandi samning
Samgöngustefna
Fyrirtækið skal hafa markað sér samgöngustefnu með ábyrgum hætti eða hafa áform um að vinna að slíkri stefnu. Skal starfsfólk fyrirtækisins hvatt til að tileinka sér vistvænar samgöngur, eða aðra samgöngumáta en þann að ferðast með einkabílum (s.s. ganga, hjóla, nota almenningssamgöngur, o.s.frv.).
Afhending persónuupplýsinga
Fyrirtækið þarf að láta Strætó bs. í té upplýsingar um starfsmann (nafn og kennitölu) svo hefja megi umsóknarferli um slíkt kort. Fyrirtækið skal gæta þess að ekki komi fram nöfn annarra en þeirra sem sannanlega eru starfsmenn þess. Misbrestur á því telst brot á samningi þessum og fyrirvaralausri uppsögn og ógildingu Samgöngukorta.
Mat á árangri og uppsögn
Samning þennan skal endurskoða með jöfnu tímabili og meta árangur af honum. Árangur skal ekki bundinn kaupum á Samgöngukortum eingöngu heldur horft til allra vistvænna samgöngumáta. Sjái aðilar ástæðu til skal samningur þessi vera uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara og skal uppsögn hans vera skrifleg.
Með því að haka í boxið í umsóknarferlinu samþykkir viðkomandi aðili þessa skilmála fyrir hönd síns fyrirtækis.