Hér má nálgast reglur og skilmála í Strætó.

1. Skilgreiningar

  • Vegagerðin á og rekur landsbyggðarstrætó en Strætó sér um ákveðna upplýsingagjöf og þjónustu fyrir farþega.
  • „Farþegi“ merkir hvern þann einstakling sem greiðir fyrir flutning með landsbyggðarvögnum.
  • „Fargjald“ er annars vegar staðgreitt (reiðufé og farmiðar) og hins vegar kort, ýmist tímabils-eða árskort.
  • „Farangur“ þýðir sérhver hlutur sem fluttur er með landsbyggðarvögnum hvort heldur sem er í tengslum við farþegaflutning.
  • ,,Handfarangur“ þýðir farangur sem farþegi hefur í vörslu sinni á meðan á ferð hans stendur í landsbyggðarvögnum.

2. Fargjald

Farþega ber að greiða fargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá sem Vegagerðin ákveður hverju sinni.

Farmiðar og kort eru ekki endurgreidd og áskilur Strætó sér allt að tíu (10) virka daga til að framleiða og afhenda kort.

Til staðgreiddra fargjalda teljast annars vegar reiðufé og hins vegar farmiðar.

Afritun eða fölsun á fargjaldi er ólögleg og verða þeir sem verða uppvísir að slíku athæfi eða notkun, umsvifalaust kærðir til lögreglu.

 


3. Reglur um borð

Á meðan á ferð stendur eru farþegar skuldbundnir að hlíta fyrirmælum vagnstjóra.

Brjóti farþegar almennar viðurkenndar hátternisreglur eða sýna að öðru leyti af sér óæskilega framkomu í landsbyggðarvögnum gagnvart öðrum farþegum ellegar vagnstjóra kann það að leiða til þess að farþega verði vísað úr vagninum.

Farþegar skulu sýna hver öðrum gagnkvæma tillitssemi og kurteisi á meðan á ferð stendur.

  • Ætlast er til að allir viðskiptavinir noti sætisbelti um borð í landsbyggðarvögnum.
    • Börn yngri en þriggja ára verða að nota viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- eða verndarbúnað. Viðskiptavinir þurfa að koma með eigin öryggis- eða verndarbúnað fyrir börn sem eru yngri en þriggja ára.

Heimilt er að taka með sér farangur um borð, en miðað er við að farþegi geti borið farangurinn um borð eða sett í farangursgeymslu einn síns liðs. Strætó ber ekki ábyrgð á farangri farþega hvorki í farangursgeymslu né í farþegarými nema ef slys, óhapp eða annar ófyrirséður atburður á sér stað.

  • Vagnstjóra er heimilt að synja farþega um flutning á varningi eða farangri sem fyrirfram má ætla að hafi áhrif á líðan eða heilsu annarra farþega á meðan á ferð stendur, t.d. vegna lyktar, hávaða eða stærðar.
  • Óheimilt er að ferðast með gæludýr í landsbyggðarvögnum.
  • Óheimilt er að ferðast með spengiefni, eldfim efni, íðefni og eiturefni.
  • Heimilt er að ferðast með byssur, skotvopn og vopn gegn því að þau séu geymd í farangursgeymslu vagnsins meðan á ferð stendur. Óheimilt er að ferðast með byssur, skotvopn og vopn í farþegarými. Ef ferðast er með skotvopn skal skotvopnið vera óhlaðið. Engin skotfæri mega vera í sömu tösku og skotvopnið. Skotfærin skulu vera pökkuð í umbúðir þar sem ytra byrðið er úr tré, áli eða trefjaplasti. Innra byrðið skal vera höggþétt og geta varið fyrir óvæntum hreyfingum og gengið svo frá að skotfærin geti ekki skapað hættu vegna óhappa í flutningi.
  • Heimilt er að ferðast með reiðhjól á meðan pláss og aðstæður leyfa en athugið að á sumum leiðum er ekki hægt að taka reiðhjól með.
    • Stærstu leiðirnar á landsbyggðinni eru með hjólagrind aftan á vögnunum þar sem er pláss fyrir 3-4 reiðhjól. Einnig er hægt að koma fyrir samanbrotnum reiðhjólum í farangursgeymslu ef pláss leyfir.
    • Leiðir á landsbyggðinni sem notast við smærri rútur eru ekki með hjólagrindur en leyfilegt er að koma hjólum fyrir í farangursgeymslu eða farþegarými ef pláss og aðstæður leyfa.
    • Leið 55, sem ekur milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar (Keflavíkurflugvallar), er ekki með hjólagrind. Heimilt er að taka reiðhjól í vagninn ef farþegi er tilbúinn með það samanbrotið þegar vagninn kemur og ef pláss og aðstæður leyfa.
  • Heimilt er að neyta matar og drykkja um borð í landsbyggðarvögnunum, en gæta þarf almenns hreinlætis og snyrtimennsku.

4. Ferðareglur fyrir börn

Börn sem ferðast með landsbyggðarstrætó eru á ábyrgð foreldra og forráðamanna. Þeim aðilum sem hyggjast senda börn sín ein með vagni, sérstaklega í lengri ferðir, er bent á að kynna sér tilmæli umboðsmanns barna og hafa í huga að leggja ekki óæskilega ábyrgð á herðar barnsins. Þá er bent á að í mörgum tilfellum eru reglur þannig að við 15 ára aldur er barni veitt aukin ábyrgð, þ.m.t. sú ábyrgð að gæta annarra barna, sjá m.a. hér

Þá vekur Vegagerðin sérstaka athygli á 92. gr. barnaverndalaga um útivistartíma barna.

Afar mikilvægt er að börnin séu vel undirbúin fyrir ferðalagið af forráðamönnum sínum:

  • Að börn viti nákvæmlega hvar þau eigi að fara út eða skipta um bíl.
  • Að börn séu upplýst og meðvituð um að yfirgefa ekki vagninn nema ef biðtími vagns er lengri en 10 mínútur á stoppistöð eða ef skipta þarf um vagn á leiðinni.
  • Að það sé tryggt að börn séu sótt á áfangastað.
  • Að börn sitji eins framarlega í vagninum og unnt er.
  • Að börn hafi farsíma meðferðis, ef mögulegt er, með helstu númerum forráðamanna.

Börn, 10 ára og yngri, hafa ekki leyfi til að ferðast ein með landsbyggðarvögnum. Börn 10 ára og yngri skulu vera í fylgd með einstaklingi 15 ára eða eldri. 1. júní árið sem börn verða 10 ára geta þau ferðast ein með landsbyggðarstrætó án fylgdaraðila (að loknum 4. bekk).

Börnum yngri en 10 ára er óheimilt að ferðast ein með landsbyggðarvögnum, og þeim sem eru ekki í fylgd með eldra barni eða fullorðnum, verður ekki hleypt inn í vagninn.

Vegagerðin ber ekki ábyrgð á börnum í landsbyggðarvögnum, þar með talið hvort þau fari inn eða út á tilgreindum stað. Börn sem ferðast með landsbyggðarvögnum eru á ábyrgð forráðamanna sinna.

  • Ætlast er til að allir viðskiptavinir noti sætisbelti um borð í landsbyggðarvögnum.
    • Börn yngri en þriggja ára verða að nota viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- eða verndarbúnað. Viðskiptavinir þurfa að koma með eigin öryggis- eða verndarbúnað fyrir börn sem eru yngri en þriggja ára.

5. Seinkun á brottför eða aflýsing ferða

Um akstur landsbyggðarvagna fer samkvæmt gildandi tímatöflum hverju sinni.

Strætó áskilur sér rétt til að aflýsa ferðum og/eða gera breytingar á þeim vegna óviðráðanlegra orsaka sem Strætó fær engu um ráðið, t.d. slæmra veðurskilyrða, verkfalla og þess háttar.

Strætó ber skaðabótaábyrgð á farþegum, farangri og handfarangri ef tjónið verður rakið til saknæmrar háttsemi vagnstjóra.

Strætó ber ekki ábyrgð á niðurfellingu ferðar eða tafa vegna óviðráðanlegra orsaka sem Strætó ræður ekki við.

Strætó ber ekki ábyrgð á beinum eða óbeinum kostnaði eða tjóni sem farþegi verður fyrir ef ferð er felld niður eða seinkar af óviðráðanlegum orsökum.

Strætó er heimilt að færa farangur sem skilinn er eftir í vögnum félagsins í geymslu á kostnað, ábyrgð og áhættu farþega eða eiganda.

Ef ferð er aflýst eða brottför seinkar á farþegi rétt á því að fá upplýsingar um stöðu mála um leið og hún er ljós, þ.m.t. nýja brottfara- og komutíma. Upplýsingar má nálgast í gegnum tilkynningar á heimasíðu Strætó eða á Twittersíðu Strætó.

Ef landsbyggðarvagn verður veðurtepptur á miðri leið eiga farþegar rétt á að fá eftirstöðvar fargjaldsins endurgreiddar eða fá far með næsta vagni þegar tækifæri gefst. Farþegi gæti þurft að sýna kvittun  til staðfestingar á keyptu fargjaldi. Ef farþegar verða veðurtepptir yfir nótt ber Strætó ábyrgð á að útvega farþegum gistingu á hóteli eða gistiheimili. Almenna reglan er sú að farþegar bíði á gististað eftir næstu áætluðu ferð samkvæmt tímatöflu nema sérstakar aðstæður eða undantekningar kalli á önnur viðbrögð.


6. Breytingar

Vegagerðin áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum, gjaldskrám og áætlunum hvenær sem er þó að undangengnum tilkynningum og auglýsingum á heimasíðu félagsins og eftir atvikum í fjölmiðlum.

 


7. Lögsaga

Rísi ágreiningur milli Strætó og farþega um veitta þjónustu skulu aðilar leitast við að jafna hann. Takist það ekki skal hann rekinn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 


8. Gildistaka

Skilmálar þessir öðlast gildi frá og með 16. janúar 2019 og skulu gilda um alla flutninga á farþegum og farangri með landsbyggðarvögnum.