Föstudaginn 31. janúar 2025 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30.
Mætt voru:
- Kristín María Thoroddsen (KMT)
- Örvar Jóhannsson (ÖJ)
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
- Björg Fenger (BF)
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG).
Fundinn sat einnig Jóhannes Rúnarsson (JR), Elísa Kristmannsdóttir og Sigurborg Þórarinsdóttir sem ritaði fundargerð.
1. Starfsáætlun 2025
Framkvæmdastjóri lagði fram starfsáætlun stjórnar vegna ársins 2025. Stjórn samþykkir starfsáætlun ársins.
2. Áhættumat
Framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Strætó fóru yfir mælaborð áhættustýringar og áhættustefnu. Lagt er til að áhættustefnan verði endurskoðuð á árinu 2025.
3. Gufunes og Kjalarnes
Reykjavíkurborg hefur óskað eftir að þjónusta við íbúa Gufuness og Kjalarness verði bætt. Hverfin eru þjónustuð að mestu með pöntunarþjónustu og er tillaga um að hún verði bætt. Íbúar Gufuness hafa óskað eftir að pöntunarþjónusta úr og í hverfið gangi í takt við tímatöflu vagna sem fara frá Spöng. Íbúar Kjalarness hafa óskað eftir fleiri ferðum og að leiðin passi við tímatöflu leiðar 15 í Háholti. Samþykkt að senda til umsagnar íbúaráða tillögur að bættri þjónustu. Aukinn kostnaður vegna meiri pöntunarþjónustu er greiddur af viðkomandi sveitarfélagi.
4. Nýtt leiðanet
Ragnheiður Einarsdóttir, deildarstjóri skipulags- og leiðakerfis kom á fundinn og kynnti skýrslu um Nýtt leiðanet. Í skýrslunni er að finna nýjustu útgáfuna af Nýju leiðaneti og farið yfir ferlið við vinnslu þess. Nýtt leiðanet er hryggjarstykkið í hönnun og uppbyggingu hágæða almenningssamgangnakerfis höfuðborgarsvæðisins. Stjórn samþykkir lokaskýrslu um Nýtt leiðanet. Jafnframt var kynnt verkefni þar sem greindir verði þeir leggir sem valda mestri seinkun og hvaða úrbætur lagt er til að ráðist verði í.
5. Elliðaárdalur
Beiðni hefur komið um að almenningssamgöngur gangi að Hinu húsinu og Elliðaárstöð. Næstu stoppistöðvar eru í 5 til 15 mínútna göngufjarlægð frá Hinu húsinu. Stjórn óskar eftir að skoðað verði hvaða möguleikar eru á að bæta þjónustu við Hitt húsið og kostnaðarmeta þær tillögur.
6. Strætó fyrir öll
Samkvæmt stefnu félagsins er markmið þess að gera almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu aðgengilegri fyrir öll. Framkvæmdastjóri kynnti aðgerðir sem eru í vinnslu og hafa það að markmiði að auka aðgengi að almenningssamgöngum. Stjórn óskar eftir að unnið verði samræmt mat á hvernig aðgengi er skilgreint eins og það verður tilgreint í samhengi við stoppistöðvar. Einnig er óskað eftir að unnið verði að því að hægt verði að merkja við lengri göngutíma í appinu til að mæta ólíkum þörfum.
7. Útfösun bauka
Framkvæmdastjóri fór yfir kynningar- og aðgerðarplan vegna útfösun bauka og þar með að hætta að taka við staðgreiðslu í vögnum á höfuðborgarsvæðinu. Gert ráð fyrir að hætt verði að taka við peningum frá og með 1. júní n.k. Á sama tíma er verið að fjölga sölustöðum miða til að tryggja aðgengi þeirra sem ekki nota snjallsíma.
8. Öryggismál
Sigurborg Þórarinsdóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðamála kynnti öryggismál í vögnum og þær áskoranir sem vagnstjórar glíma við. Stjórn er sammála um að beina því til skólayfirvalda í aðildarsveitarfélögum að skoðað verði að auka fræðslu um hlutverk almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
9. Leigubílaútboð
Lagt fram minnisblað frá Cowi um rammasamningsútboð á akstri leigubíla í akstursþjónustu Pant. Stjórn Pant hefur heimilað að ganga frá samningum við Hreyfil sem var lægstbjóðandi. Lagt fram og samþykkt.
10. Ályktun öldungaráðs Reykjavíkur
Lögð fram ályktun öldungaráðs Reykjavíkur. Stjórn leggur áherslu á samræmingu svara og góða upplýsingagjöf til fyrirspyrjenda.
11. Börn og Strætó
Umboðsmaður barna hefur boðað til vinnustofu um börn og Strætó þann 1. febrúar 2025. Reglulega hefur Strætó fundað með ungmennaráðum aðildarsveitarfélaga og fagnar stjórn framtaki umboðsmanns.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:35.