Föstudaginn 13. desember 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30.
Mætt voru:
- Kristín María Thoroddsen (KMT)
- Lovísa Jónsdóttir (LJ)
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
- Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE )
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG)
Fundinn sát einnig Jóhannes Rúnarsson (JR) sem ritar fundargerð.
1. Kjarasamningur við Samiðn
Framkvæmdastjóri lagði fram kjarasamning Samiðnar við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Strætó bs. sem undirritaður var 26. nóvember 2024.
Stjórn samþykkir framlagðan kjarasamning við Samiðn.
2. Gjaldskrárstefna
Í framhaldi af umræðu um gjaldskrá á síðasta stjórnarfundi 15. nóvember 2024, fór fram frekari umræða um stefnu í gjaldskrármálum.
Fulltrúi Reykjavíkurborgar bókar eftirfarandi:
Það er full ástæða til að meta áhrif gjaldskrárhækkana á notkun og leggja grunn að uppfærðri gjaldskrárstefnu sem er næmari gagnvart markmiðum fyrirtækisins um að auka notkun almenningssamgangna. Samkvæmt rannsókn á verðteygni eru þeir hópar næmastir gagnvart verðhækkunum sem hafa annan valkost, en það er einmitt sá hópur sem við þurfum að fá til að auka notkun sína til að fækka bílum á götunum, minnka tafir og draga úr mengun. Minnt er á að bílum er að fjölga um 70 bíla á viku á höfuðborgarsvæðinu og því stefnir að óbreyttu í óefni. Stök fargjöld og 12 mánaða kortin eru komin að sársaukamörkum og því varhugavert að hækka þessa flokka enn frekar á þessum tímapunkti. Sú gjaldskrárstefna sem er í gildi gengur út frá rekstrarkostnaði og vísitöluhækkunum en hefur enga snertingu við verðteygni, notkun eða samkeppnishæfni við aðra ferðamáta. Brýnt er að tengja verðteygni betur inn í gjaldskrárstefnuna. Umræðu verður framhaldið á næstu stjórnarfundum.
3. Seinkanir í leiðakerfinu
Ragnheiður Einarsdóttir, deildarstjóri skipulags- og leiðakerfismála kynnti tillögur að lagfæringu tímasetningar nokkurra leiða þar sem seinkanir eru orðnar umtalsverðar. Á stjórnarfundi þann 15. nóvember var fjallað um seinkanir og að grípa þurfi til aðgerða. Strætó tekur tillögur að forgangsaðgerðum og sendir á sveitarfélög til skoðunar.
4. Þjónustuaukning
Ragnheiður Einarsdóttir, deildarstjóri skipulags- og leiðakerfismála fór yfir fyrirhugaða þjónustuaukningu á árinu 2025 sem tilgreind er í uppfærðum samgöngusáttmála. Umræður urðu um að skoða þurfi tíðni um kvöld og helgar frekar til að gera almenningssamgöngur að enn betri valkosti.
5. Markaðskönnun vegna hleðsluinnviða
Hrafn Leó Guðjónsson, ráðgjafi frá Enord kynnti niðurstöður markaðskönnunar vegna hleðsluinnviða (RFI). Í núverandi samningum við verktaka er gert ráð fyrir að byggðir verði upp hleðsluinnviðir vegna orkuskipta, gert er ráð fyrir að orkuskiptin hefjist á árinu 2025. Þrettán aðilar sendu inn upplýsingar um mögulegar tæknilausnir. Næstu skref eru að hefja undirbúning að útboði, stjórn heimilar framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.
6. Frítt net í vögnum
Búnaður sem stýrir fríu neti í vögnum Strætó er orðinn gamall og úreldur. Stjórn samþykkir tillögu framkvæmdastjóra að hætta með frítt net í vögnum og vinna að útfösun þess.
7. Fargjaldaálag - næstu skref
Framkvæmdastjóri kynnti ferli við innheimtu fargjaldaálags og að stefnt er að hefja innheimtu í byrjun næsta árs. Ýmsar breytingar eru fyrirhugaðar á næsta ári í tengslum við þjónustu Strætó og er gert ráð fyrir að settir verði upp fleiri skannar inn í vögnum félagsins sem skapar þá möguleika að hægt sé að ganga inn um fleiri innganga. Þá er verið að skoða að breyta hlutverki vagnstjóra í eftirliti með greiðslum fargjalda. Álag verður lagt á þá sem ekki greiða rétt fargjald og er miðað við að 15 ára og eldri greiði fargjaldaálag. Stjórn minnir á að 11 ára og yngri fá frítt í Strætó.
8. Biðstöðvamál
Íbúar við Skúlagötu hafa kvartað yfir hávaðamengun vegna endastöðvar þar. Gripið hefur verið til ýmissa leiða til að draga úr truflunum vegna vagna og er stöðugt verið að vinna að úrbótum og aðgerðum. Til stendur að gera mælingar á hávaða á næstu vikum.
Stjórn bókar eftirfarandi:
Brýnt er að bregðast við kvörtunum vegna endastöðvar við Skúlagötu. Þær eru teknar alvarlega, bæði af stjórn og framkvæmdastjóra og brugðið hefur verið á ýmis ráð vegna þessa, meðal annars með miklu eftirliti. Það verður að slökkva á bílunum á meðan vagnstjórar taka sér hlé, það er skýr krafa af hálfu stjórnar.
9. Starfskjaranefnd
Formaður starfskjaranefndar fór yfir drög að starfskjarastefnu, starfsreglur starfskjaranefndar og aðrar niðurstöður nefndar. Einnig voru lagðar fram fundargerðir starfskjaranefndar fyrir fyrstu þrjá fundi nefndarinnar. Stjórnin samþykkti tillögur starfskjaranefndar.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 11:00.