Föstudaginn 18. október 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30.
Mætt voru:
- Kristín María Thoroddsen (KMT)
- Örvar Jóhannsson (ÖJ)
- Elísabet Berglind Sveinsdóttir (EBS)
- Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE )
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG)
Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson (JR), Sigurborg Þórarinsdóttir (SÞ) mannauðsstjóri og Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri sem ritar fundagerð.
1. Níu mánaða árshlutauppgjör
Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri fór yfir drög að 9 mánaða uppgjöri. Hagnaður nam um 215 m.kr. Fargjöld hækkuðu um 8% frá sama tímabili í fyrra, en eru lítillega undir áætlunum. Launakostnaður er undir áætlun, en þar sem kjarasamningar eru lausir hefur verið gert ráð fyrir hækkun í áætlunum. Viðræður eru í gangi. Hækkun á rekstrarkostnaði vagna og aðkeyptri þjónustu má rekja til þess að lítill hluti aksturs var fluttur yfir til verktaka, meðal annars vegna stöðu vagnaflota hjá Strætó. Viðhaldskostnaður var einnig mjög hár á fyrra tímabili, sem stafar af háum aldri vagnflotans. Strætó hefur leigt nokkra strætisvagna til að mæta þessum vanda. Sjóðstaða í lok tímabils er ágæt.
2. Fjárhagsáætlun 2025 - áframhaldandi umræða
Framhaldsumræða um fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2025 bendir til þess að aksturskostnaður verktaka muni hækka verulega í kjölfar nýs útboðs. Fjárhagsáætlunin byggir á forsendum Samgöngusáttmálans, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að 2,2 ma.kr. verði varið til almenningssamgangna. Áætlað er að auka þjónustu og hefur Strætó einnig tekið að sér uppbyggingu hleðsluinnviða vegna orkuskipta hjá verktökum. Aðrar forsendur fjárhagsáætlunarinnar eru byggðar á þjóðhagsspá, þróun launakostnaðar samkvæmt kjarasamningum og kostnaði vegna nýs akstursútboðs. Sölutölur fyrir árið 2024 gefa til kynna að ákveðnum sársaukamörkum hafi verið náð, og talið er óraunhæft að hækka gjaldskrá meira en um 4%. Einnig er gert ráð fyrir auknu umfangi þjónustunnar. Stjórn samþykkir að heimila framkvæmdastjóra að senda drög af fjárhagsáætlun til aðildarsveitarfélaga og SSH.
3. Seinkanir í leiðakerfinu og áhrif þess
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var óskað eftir auknu fjármagni til að takast á við seinkanir á vögnum. Aukning í umferð hefur haft umtalsverð áhrif á leiðakerfi Strætó, sérstaklega á álagstímum. Lækkun hámarkshraða af hálfu sveitarfélaga og skortur á sérakreinum hefur einnig stuðlað að vandanum. Viðskiptavinir hafa lýst óánægju sinni með stöðuna, og vagnstjórar reyna að auka hraða til að vinna upp tapaðan tíma, sem hefur í för með sér frekari neikvæð áhrif á þjónustuna og dregið úr öryggi í akstri. Skoða þarf að auka forgang Strætó á umferðarljósum enn frekar og grípa til annarra aðgerða til að efla stundvísi og áreiðanleika í kerfinu.
4. Endastöð á Skúlagötu
Kvartanir hafa borist frá íbúum í nágrenni endastöðvarinnar á Skúlagötu. Til að bregðast við þessum ábendingum hefur eftirlit á svæðinu verið aukið, og eftirlitsmenn hafa fylgst með frágangi vagnstjóra á vögnum við endastöðina. Auk þess hefur ítrekað verið sendar tilkynningar til allra vagnstjóra um að slökkva á vélum vagnanna á meðan þeir eru í biðstöðu á endastöðinni. Eftirlitsmenn meta að ástandið á svæðinu hafi batnað.
5. Orkuskiptaframlag skv. Samgöngusláttmála
Fundinum voru kynntir punktar varðandi framlag til orkuskipta samkvæmt Samgöngusáttmála. Umræður fóru fram og vinna við málið heldur áfram. Framkvæmdastjóra var heimilað að hefja viðræður við verktaka á grundvelli umræðna á fundinum að fengnu áliti lögfræðings félagsins.
6. Rekstrarleiga/kaup vagna
Umræður héldu áfram um rekstrarleigu eða kaup á nýjum vögnum. Vagnfloti Strætó er í viðkvæmri stöðu, þar sem lítið þarf til að valda niðurfellingu ferða. Skoðun á möguleikum rekstrarleigu heldur áfram, sérstaklega þar sem rekstrarkostnaður elstu vagnanna hefur aukist verulega og bið eftir nýjum vögnum er töluverð.
7. Hlemmur - færsla endastöðva áhrif á verktaka
Minnisblað um áhrif lokunar á Hlemmi var lagt fyrir fundinn. Verktakar telja að lokunin leiði til aukins kostnaðar. Umræður fóru fram um málið og ákveðið var að kanna stöðuna frekar.
8. Innri endurskoðun
Lagt fyrir bréf frá endurskoðunarnefnd varðandi áætlun innri endurskoðenda dagsett 7. október 2024.
9. Þjónustumál næstu skref
Framhald var á umræðum um þjónustumál frá síðasta fundi. Samþykkt var að hefja úrbótavinnu í tengslum við þjónustuna. Gerðar verða ítarlegar greiningar á þjónustunni og unnin aðgerðaráætlun, með það að markmiði að bæta aðgengi, auka ánægju farþega og stuðla að aukinni notkun.
10. Starfskjaranefnd
Stjórn samþykkir fyrirkomulag varðandi starfskjaranefnd.
11. Mannréttindi
Mannréttindi verða tekin með í vinnu um þjónustumál.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:00.