Föstudaginn 9. júní 2023 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sat einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR) framkvæmdastjóri og Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs, sem ritaði fundargerð.


1. Árshlutauppgjör janúar - mars 2023

Drög að árshlutauppgjöri voru kynnt á stjórnarfundi 19. maí sl. Elísa Kristmannsdóttir, deildarstjóri fjármála, lagði uppgjörið fram fyrir stjórn til samþykktar. Uppgjörið er aðeins yfir áætlun, en þó er eiginfjárstaða komin í mínus. Stjórn Strætó samþykkti árshlutauppgjör janúar-mars 2023. Áfram er unnið í því að koma rekstrinum í betra horf eins og síðustu misseri, en skýrsla fjármálastjóra er væntanleg.


2. Reglur um fjargjaldaálag

Framkvæmdastjóri lagði fram endurskoðaðar reglur um fargjaldaálag sem unnið hefur verið að í samvinnu við Innviðaráðuneytið. Innviðaráðuneytið mun auglýsa reglurnar í Stjórnartíðindum og þá taka þær gildi. Unnið er að verklagi innan Strætó við innheimtu fargjaldaálags og verður fyrirkomulagið kynnt stjórn Strætó þegar það liggur fyrir.

Stjórn leggur áherslu á að álagning fargjaldaálags sé til þess fallin að auka gæði og þjónustu Strætó.


3. Staða vagnaflotans - framhald

Í framhaldi af umræðu um stöðu vagnaflotans á síðasta fundi stjórnar Strætó lagði framkvæmdastjóri nú fram frekari gögn. Í ljósi vagnastöðu Strætó er ljóst að grípa þarf til aðgerða til að koma í veg fyrir óásættanlega áhættu í rekstri. Þar eru tveir kostir í boði, annars vegar að ráðast í innkaup á 6 til 8 nýjum vögnum á ári næstu þrjú árin. Áætlaður kostnaður við það er áætlaður um 1,3 milljarðar króna. Hins vegar að ráðast í útboð á 1-2 leiðum. Í ljósi fjárhagsstöðu Strætó og í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna leggur stjórn Strætó til við stefnuráð sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að farin verði útboðsleiðin og ákvörðun tekin sem fyrst.


4. Tryggingaútboð

Tryggingarsamningur Strætó við VÍS rennur út í lok árs. Vinna þarf útboðsgögn og hefja undirbúning. Stjórn Strætó heimilar framkvæmdastjóra að hefja vinnu við útboð trygginga fyrir Strætó.


5. Akstur á hátíðisdögum, menningarnótt og Reykjavík Pride

Framkvæmdastjóri fór yfir fyrirkomulag aksturs Strætó á hátíðisdögum, s.s. 17. júní, menningarnótt og Reykjavík Pride. Undanfarin ár hefur verið frítt í Strætó á menningarnótt en ekki hina hátíðisdagana. Afkastageta Strætó er takmörkuð og með mikilli fjölgun fólks sem sækir viðburði eins og menningarnótt  ræður Strætó illa við að framkvæma verkefnið eins vel og kostur er. Í ljósi vagnastöðu og fjárhagsstöðu Strætó lagði framkvæmdastjóri fram tillögu um að auka þjónustu Strætó á menningarnótt gegn því að hætta að hafa gjaldfrjálst í Strætó á leið í miðborgina. Tæming að lokinni dagskrá yrði þó áfram gjaldfrjáls og með þeim hætti eins og verið hefur undanfarin ár.

Stjórn samþykkir framlagða tillögu.


6. Kosning endurskoðenda

Boðin var út endurskoðunarþjónusta fyrir stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar. Strætó tók þátt í þessu útboði og var niðurstaða þess að semja við Grant Thornton. Stjórn Strætó samþykkir að Grant Thornton verði endurskoðendur félagsins til næstu fimm ára.


7. Þjónustugreining - niðurstaða rýnihópa

Markús Vilhjálmsson, markaðs- og sölustjóri Strætó, kom fyrir fundinn og kynnti niðurstöður rýnihópa í tengslum við þjónustugreiningu sem unnið hefur verið að síðustu misseri.


8. Skýrsla innri endurskoðenda

Innri endurskoðandi, Sif Einarsdóttir frá Deloitte, kom fyrir á fundinn á Teams og fór yfir skýrslu og athugasemdir innri endurskoðunar. Skoðaðir voru fimm mikilvægir þættir í starfsemi Strætó m.t.t. áhættu í rekstri.

Stjórn samþykkti að heimila framkvæmdastjóra að athuga með að framlengja samning um innri endurskoðun við Deloitte um 2 ár.


9. Næturstrætó til umræðu

Fulltrúi Hafnarfjarðar óskaði eftir umræðu um næturstrætó.


Önnur mál

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:50.