Markmið

Tilgangur og markmið siðareglna er að setja grunnviðmið fyrir góða viðskiptahætti og gott siðferði starfsfólks. Í fyrirtækinu er lögð áhersla á áreiðanleika, samvinnu og drifkraft. Siðareglur eru ekki tæmandi lýsing á hegðun heldur þarf starfsfólk að meta aðstæður og taka ákvarðanir sem byggja á almennri dómgreind. Í öllum störfum fyrir Strætó þarf starfsfólk að gæta þess að koma fram af heilindum, vinsemd og virðingu við alla.

Meðferð upplýsinga og upplýsingatækni

Starfsfólk er bundið trúnaðar- og þagnarskyldu um það sem það kemst að í starfi sínu fyrir Strætó varðandi viðskiptalegar, tæknilegar og/eða persónulegar upplýsingar sem leynt eiga að fara. Starfsfólki er óheimilt að afla sér upplýsinga um samstarfsfólk og viðskiptavini sem eru ekki nauðsynlegar starfsins vegna. Trúnaðar- og þagnarskylda helst þótt starfsmaður láti af störfum hjá Strætó. Aðgangur starfsfólks að tölvubúnaði, tölvuneti, hugbúnaði og gögnum (internet, tölvupóstur) er einungis ætlaður til notkunar í starfi í þágu fyrirtækisins. Samskipti við fjölmiðla eru í umsjá framkvæmdastjóra. Starfsfólk gætir almennrar háttvísi í notkun samfélagsmiðla.

Samfélagið

Starfsfólk gætir kurteisi og réttsýni, hefur í heiðri heiðarleika og sanngirni og starfar í anda jafnréttis og án fordóma. Starfsfólk virðir tilfinningar og einkalíf annarra. Starfsfólk forðast að hafast nokkuð að sem er fyrirtækinu til vanvirðu eða álitshnekkis eða sem varpað getur rýrð á það starf eða þá starfsgrein sem það vinnur við. Starfsfólk umgengst umhverfið af nærgætni, hófsemd og varfærni og stuðlar á allan hátt að því að huga vel að umhverfinu. Starfsfólk reynir eftir fremsta megni að draga úr losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum og ekur ökutækjum fyrirtækisins á hagkvæman, vistvænan og öruggan hátt. Starfsfólk virðir umhverfið og gætir þess að ákvarðanir fyrirtækisins hafi sem minnst áhrif á náttúru landsins. Þess er gætt að valda ekki óþarfa spjöllum á náttúrunni, mannvirkjum og sögulegum minjum.

Viðskiptavinurinn

Starfsfólk sýnir viðskiptavinum fyrirtækisins virðingu og umburðarlyndi. Starfsfólk hlustar á ábendingar viðskiptavina, lærir og bregst við þeim. Starfsfólk gætir þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfs þess á hverjum tíma. Það leggur sig fram um að viðhalda faglegri hæfni sinni og þekkingu í starfi og auka hana sjálfu sér og starfseminni til hagsbóta.

Starfsfólk

Starfsfólk virðir mikilvægi Strætó í samfélaginu og leggur sig fram við að auka virðingu og efla ímynd fyrirtækisins. Starfsfólk temur sér gildi Strætó; áreiðanleika, samvinnu og drifkraft í öllum sínum athöfnum og störfum fyrir fyrirtækið. Starfsfólk fer eftir lögum og reglum í sínum störfum. Starfsfólk ber virðingu fyrir öðrum og hefur jafnrétti að leiðarljósi.

Hagsmunaárekstrar

Starfsfólk forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekur athygli á því ef hætta er á þeim. Þetta á einnig við ef breytingar verða á högum starfsfólks sem gætu valdið slíkum hagsmunaárekstrum. Starfsfólk misnotar ekki aðstöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum hjá Strætó lýkur.

Ráðningar

Hjá Strætó er þess gætt að í hvívetna sé fylgt lögum, reglum, kjarasamningum og starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu og annarri stefnumörkun fyrirtækisins. Þess er gætt að málefnaleg sjónarmið liggi ávallt að baki við ráðningu starfsfólks.

Gjafir og fríðindi

Starfsfólk Strætó þiggur ekki boðsferðir, gjafir eða önnur fríðindi sem tengjast viðskiptum fyrirtækja eða einstaklinga við Strætó, ef líta má á gjafirnar sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Strætó heimilar atburði og gjafir í hófi eins og tíðkast vegna markaðssetningar hjá sambærilegum fyrirtækjum.

Önnur vinna og félagsstörf

Starfsfólk Strætó tekur ekki að sér launuð störf utan Strætó sem truflað gætu störf þess hjá fyrirtækinu. Þátttaka starfsfólks í félagsstörfum utan vinnu er jákvæð fyrir fyrirtækið og samfélagið. Starfsfólk skal gæta þess að ekki komi til árekstra við starfið vegna þátttöku þess í félagsstarfi eða stjórnmálum.

Virðing í samskiptum

Starfsfólk Strætó kemur fram við hvert annað af virðingu og kappkostar að koma í veg fyrir hvers konar óréttlæti, áreiti eða mismunun. Kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðin hjá Strætó og hefur fyrirtækið mótað sér stefnu og viðbrögð til að bregðast við slíkum tilfellum. Áréttað er að siðareglur þessar eru ekki tæmandi lýsing á góðum starfsháttum innan Strætó bs.