Strætó gætir ávallt fyllsta jafnræðis milli starfsfólks á öllum sviðum fyrirtækisins. Hver starfsmaður er metinn og virtur að verðleikum á eigin forsendum.
Markmið jafnréttisstefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu og tækifærum, óháð kynferði eða öðrum ómálefnalegum þáttum, s.s. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Jafnréttisstefnan byggir á lögum nr. 150/2020 um jafnan rétt kynjanna og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Til þess að framfylgja jafnréttisstefnu munu stjórnendur Strætó leggja áherslu á eftirtalin atriði í rekstrinum:
- Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Greiða skal jöfn laun og skulu allir njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf.
- Jafnréttissjónarmið verða metin til jafns við önnur sjónarmið við stöðuveitingar innan fyrirtækisins.
- Jafnréttis skal gætt ef grípa þarf til uppsagna vegna skipulagsbreytinga.
- Ávallt skal leitast við að jafna kynjahlutfall á öllum sviðum.
- Þegar skipað er í vinnuhópa, nefndir og ráð, ræður fagþekking mestu um val einstaklinga. Gæta skal jafnræðis þar sem því verður við komið.
- Tryggja skal að allir njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar.
- Leitast skal eftir að Strætó verði fjölskylduvænn vinnustaður.
- Einelti, áreitni og ofbeldi er ekki liðið innan Strætó.
Árlega er tekið saman yfirlit yfir stöðu jafnréttismála og er samantektin aðgengileg öllum í ársskýrslu og á vef Strætó.