Skilgreining á áhættu
Áhætta er skilgreind sem hætta á atburði sem dregur úr líkunum á því að Strætó bs. nái markmiðum sínum.
Áhættustýring Strætó
Áhættustýringu félagsins er ætlað að hafa áhrif á mögulega atburði sem aftrað geta félaginu í að ná markmiðum sínum. Í eigendastefnu kemur fram að megintilgangur Strætó bs. er að sinna almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, tryggja greiðan flutning almennings innan svæðisins og draga eins og kostur er úr óæskilegum áhrifum vaxandi umferðar. Rekstur Strætó bs. skal á hverjum tíma miðast við að lágmarka kostnað eigenda og samfélagsins, að teknu tillit til þeirra þjónustusýnar sem sett eru og umhverfisstefnu. Fari fjárhæð einstakra nýrra skuldbindinga Strætó bs. yfir 5% af höfuðstól skal það lagt fyrir eigendafund til samþykktar áður en til hennar er stofnað og ber stjórn að meta áhættu sem í þeim kann að felast. Áhættustýring felur í sér starfsemi sem miðar að því að tilgreina, meta, mæla, stýra og milda fjárhagslega áhættu með hliðsjón af starfsemi félagsins. Í því sambandi er horft til mikilvægustu áhættuþátta félagsins í nútíð og framtíð þar sem horft er til rekstraráætlana félagsins og eigendastefnu.
Félagið flokkar áhættuþætti sína í eftirfarandi flokka:
- Kjarnaáhætta: Fylgir kjarnastarfsemi eins og hún er skilgreind í eigendastefnu Strætó, þ.e. að „starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna með samræmdu leiðakerfi og gjaldskrá.“ Kjarnaáhætta getur t.a.m. tengst vögnum og leiðakerfi.
- Fjárhagsleg áhætta, sem skiptist í eftirfarandi undirflokka:
- Markaðsáhætta, þ.e. áhrif markaðssveiflna á fjárhagslegan styrk Strætó, t.d. vegna vaxtastigs, gjaldeyrissveiflna, verðlagsþróunar, kaupa á akstri, vögnum og aðföngum og fækkunar farþega.
- Lausafjáráhætta, þ.e. geta Strætó til að mæta rekstrarútgjöldum, standa undir greiðslubyrði lána, sinna reglulegu viðhaldi, endurnýja vagnaflota og ráðast í aðrar nauðsynlegar fjárfestingar.
- Mótaðilaáhætta, þ.e. áhrif hugsanlegra vanskila viðskiptavina á félagið, t.d. að eigendur og viðskiptamenn hafi fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar sínar við Strætó, óvissa með ríkissamning á hverju ári. Innheimtuúrræði gagnvart sveitarfélögum.
- Rekstraráhætta, sem felur í sér áhættu vegna taps af ófullnægjandi eða gölluðum innri kerfum, vegna starfsmanna eða vegna ytri þátta, s.s. lagalegrar áhættu. Um er að ræða áhættu sem tengist starfsmönnum, ferlum og kerfum.
Áhættustýring
Hlutverkaskipan
Eftirfarandi aðilar gegna lykilhlutverkum í áhættustýringu félagsins:
- Stjórn: Setur áhættustefnu, tekur stærri ákvarðanir og ber ábyrgð á áhættustýringu félagsins.
- Framkvæmdastjóri: Framfylgir áhættustefnu stjórnar og útdeilir áhættuþáttum til sviða.
Upplýsir stjórnendur og starfsmenn um hlutverk sitt í áhættustýringu. - Deildarstjóri fjármálasviðs: Heldur utan um áhættuþætti félagsins í áhættuskrá og veitir stjórn upplýsingar um helstu áhættur hverju sinni, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
- Sviðsstjórar: Bera ábyrgð á innri áhættuþáttum sviða og fylgja eftir ákvörðunum stjórnar og innleiða áhættustýringu á hverju sviði.
Verkþættir áhættustýringar – Ábyrgðaraðilar
Áhættustýring félagsins skiptist í eftirfarandi verkþætti:
- Stjórnkerfi, sem felst í mótun áhættustefnu, reglum og vinnulýsingum félagsins sem varða áhættustýringu.
- Áhættumat og mælingar, sem fela í sér skilgreiningu áhættuþátta og samantekt á upplýsingum um þá.
- Greining og skýrslugjöf, sem felur í sér greiningu á upplýsingum áhættumats og mælinga.
- Stýring og ákvarðanataka
Stjórn og stjórnendur Strætó bs. skipta með sér ábyrgð í áhættustýringu félagsins sem hér segir:
Áhættuþol
Áhættuþol endurspeglar hversu mikla áhættu félagið er tilbúið að taka til þess að ná markmiðum sínum og felur því í sér mikilvægt sjónarmið við ákvarðanatöku. Áhættuþol félagsins tekur mið af eigendastefnu félagsins hverju sinni. Eftirfarandi er áhættuþol félagsins eftir áhættuflokkum .
Strætó bs. er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og rekur mikilvæga almannaþjónustu.
Áhættuþol félagsins er því lágt.
Kjarnaáhætta: áhættan á því að Strætó takist ekki að starfrækja almenningssamgöngur vegna mikilvægis samfellu í rekstri Strætó er áhættuþol vegna kjarnaáhættu lágt.
Áhættuviðmið: Kjarnaáhætta fylgir kjarnastarfsemi félagsins.
Fjárhagsleg áhætta: Sveitarfélögin og ríkið fjármagna rekstur Strætó að stærstum hluta og þar af leiðandi er áhættuþol vegna fjárhagslegrar áhættu lágt.
Áhættuviðmið: Stefnt skal að því að lágmarka fjárhagslega áhættu.
Rekstraráhætta: Áhættuþol rekstraráhættu er lágt í ljósi mikilvægis rekstrarins og eðli starfseminnar.
Áhættuviðmið: Dregið skal úr rekstrarlegri áhættu.
Áhættuvilji
Áhættuvilji setur mörk fyrir teknar áhættur og er skilgreindur sem sú áhætta sem Strætó er tilbúið að taka í starfsemi sinni við að ná skilgreindum markmiðum sínum. Áhættustig er mælt á skalanum 1 til 25. Áhætta sem lendir á skalanum 14-25 skal stýra með viðeigandi eftirlitsaðgerðum og skal vöktuð sérstaklega. Áhætta á skalanum 6 – 13 skal vera vöktuð eftir þörfum. Áhætta á skalanum 1- 5 er ekki vöktuð en endurmetin a.m.k. árlega enda viðurkennd sem innan áhættuvilja og áhættuþols Strætó. Halda skal áhættu innan 10-12 stiga.
Gildistaka og endurskoðun áhættustefnu
Áhættustefna þessi tekur gildi við samþykkt stjórnar. Áhættustefnan skal yfirfarin af stjórn árlega.
Staðfesting stjórnar
Stefna yfirfarin og samþykkt á stjórnarfundi 31.01.2025