Föstudaginn 15. ágúst 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. að Hesthálsi 14 og hófst hann kl. 7:30.
Mætt voru:
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Hjördís Ýr Johnson (HÝJ)
- Lovísa Jónsdóttir (LJ)
- Kristín Thoroddsen (KT)
- Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG)
Fundinn sat einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.
1. Árshlutauppgjör janúar til júní 2024
Framkvæmdastjóri kynnti árshlutauppgjör janúar til júní 2024. Hagnaður af rekstrinum fyrstu sex mánuði var 188 m.kr. til samanburðar við tap upp á 142 m.kr. fyrstu sex mánuði 2023. Farþegatekjur jukust um 9% milli ára. Rekstrargjöld jukust um rúm 4% milli ára sem skýrist að mestu af aðkeyptum akstri og Pant. Ekki hefur verið gengið frá kjarasamningi við samningsaðila en núverandi samningur rann út 1. apríl sl.
Handbært fé var 321 m.kr. í lok tímabils, þar af eru 89 m.kr. ætlaðaðar í vagnakaup en búið er að festa kaup á 2 rafvögnum sem koma í haust. Framkvæmdastjóri upplýsti um ítrekuð innbrot í vagna og þjófnað á fé úr baukum í vögnum með tilheyrandi tjóni og kostnaði. Strætó hefur kært málin til lögreglu.
Stjórn samþykkir árshlutauppgjörið með undirritun sinni.
2. Fjárhagsáætlun 2025 – meginforsendur og fyrstu drög
Framkvæmdastjóri fór yfir meginforsendur að fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 og fyrstu drög að fjárhagsáætlun 2025. Stjórn óskaði eftir að tekið væri saman minnisblað í samræmi við umræður á fundinum og að boðað verði til eigendafundar. Fyrirsjáanlegt er að kostnaður við rekstur vagna og aðkeypts akstur hækki umfram áætlaða spá um hækkun vísitölu. Strætó hefur ráðist í umtalsverðar hagræðingar í leiðakerfi og á skrifstofu síðustu ár og hækkað gjaldskrá til að bæta fjárhagstöðu félagsins. Framkvæmdastjóri lagði fram skýrslu frá KPMG um áætlaða fjárþörf Strætó 2024 til 2029. Óvissuþættir eru nokkrir, þeir helstu er aldur vagna Strætó, áhrif aukningu í umferð á leiðakerfið og áhrif hámarkshraðabreytinga á leiðakerfið. Fram undan er mikil uppbygging hleðsluinnviða vegna orkuskipta.
Strætó sótti um styrk til uppbyggingu hleðsluinnviða til Orkusjóðs en fékk neitun. Stjórn harmar að umsókn Strætó hefi ekki hlotið brautargengi.
3. Launamál
Stjórn Strætó hefur fjallað um launamál framkvæmdastjóra og samþykkt að hækka launa hans í samræmi við krónutöluhækkun kjarasamninga. Enn fremur var Dóru Björt Guðjónsdóttur, verðandi formanni stjórnar, falið að undirbúa stofnun starfskjaranefndar. Í umræðum kom fram að laun framkvæmdastjóra hafa einungis hækkað um rúm 7% frá árinu 2017 og eru orðin töluvert lægri en eðlilegt getur talist. Nefndinni verði falið að fara yfir launakjör forstjóra og stjórnar og taka m.a. hliðsjón af launum hjá Sorpu bs.
4. Sölutölur til loka júlí
Farþegatekjur í júní og júlí er um 4% undir áætlun. Skýrist að mestu af minni sölu árskorta og tafa við innleiðingu á snertilausum greiðslum (EMV). Sala mánaðarkorta er umfram áætlanir í mánuðunum. Sala til dagsins í dag er einnig um 4% undir áætlun.
5. Innri endurskoðun
Stjórn samþykkir að fela framkvæmdastjóra að ganga frá samningi við Deiloitte um innri endurskoðun og fengnu áliti endurskoðunarnefndar Strætó.
6. Skipan stjórnar
Dóra Björt Guðjónsdóttir var kjörin formaður stjórnar Strætó og Hjördís Ýr Johnson varaformaður.
7. Fyrirspurnir og tillögur
Fyrir fundinum lágu fyrirspurnir og tillögur frá fulltrúa Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokknum og Sósíalistaflokknum. Stjórn fól framkvæmdastjóra að svara erindunum.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:30.