Föstudaginn 16. desember 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl.  07:30. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir (SH), sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs.


1. Útboð 2024

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu á vinnu við gerð útboðsgagna vegna aðkeypts aksturs. Núverandi samningar renna út í ágúst 2024. Farið var yfir ákvarðanir sem taka þarf í tengslum við gerð útboðsgagna sem snúa meðal annars að orkugjafa, hleðslumálum, vögnum og fleiru.

Stjórn samþykkir að framkvæmdastjóri vinni áfram að gerð útboðsgagna í samræmi við umræður og kynningu sem farið var yfir. Stefnt er að því að drög að útboðsgögnum verði tilbúin í byrjun janúar og útboðið verði auglýst á EES svæðinu á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Lagt til að stjórn haldi aukafund/vinnufund til frekari umræðu um útboðsmál í upphafi árs 2023.


2. Áherslur í markaðsmálum

Markús Vilhjálmsson, deildarstjóri sölu- og markaðsdeildar Strætó fór yfir áherslur í markaðsmálum á næsta ári. Jafnframt var farið yfir drög að gjaldskrárstefnu.

Stjórn samþykkir drög að gjaldskrárstefnu Strætó.

Áherslur í sölu- og markaðsmálum 2023

Áherslur í sölu-og markaðsmálum 2023

3. Ábendingar og þjónusta

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðamála fór yfir tölfræði ábendinga á árinu 2022 og jafnframt vinnu sem er verið að vinna við að efla samskipti og þjónustu við viðskiptivini. Þá voru lagðar fram hugmyndir að vinnu við að auka og efla aðgengi fatlaðs fólks að almenningssamgöngum.


4. Jafnlaunavottun

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðamála fór yfir stöðu jafnlaunavottunnar hjá Strætó. Ný lokið er úttekt sem unnin var af Versa vottun og hlaut Strætó endurvottun til ársins 2025.


5. Nýtt leiðanet

Ragnheiður Einarsdóttir og Valgerður Benediktsdóttir, sérfræðingar á skipulagssviði Strætó fóru yfir drög að Nýju leiðaneti. Unnið hefur verið að skipulagi Nýs leiðanets undanfarin ár með víðtæku samráði við notendur og hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir að endanleg skýrsla um Nýtt leiðanet verði tilbúin í janúar og verði lögð undir stjórn Strætó til samþykktar. Í framhaldi verður kynning fyrir eigendur Strætó og lagt til endanlegt samþykki á Nýju leiðaneti á höfuðborgarsvæðinu.  Kostnaðaráætlun fyrir Nýtt leiðanet er á verðlagi ársins 2019 og óskar stjórn eftir að hún verði uppfærð miðað við verðlag dagsins í dag.


6. Niðurstaða í olíuútboði

Strætó bauð út kaup á olíu fyrir strætisvagna. Þrír aðilar buðu í og var fundargerð opnunarfundar lögð fyrir fundinn.  Tilboð voru undir kostnaðaráætlun.

Stjórn heimilar framkvæmdastjóra að ganga til samninga við lægst bjóðanda.

Önnur mál

  • Næturstrætó í Reykjavík – Fulltrúi Reykjavíkurborgar kynnti hugmyndir Reykjavíkur um að bjóða upp á næturstrætó um helgar. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á um 51 m.kr. fyrir árið 2023. Umræðum verði haldið áfram á næsta stjórnarfundi.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 10:00.