Föstudaginn 18. nóvember 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl.  07:30. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir (SH), sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs.


1. Innri endurskoðunaráætlun 2022

Sif Einarsdóttir endurskoðandi frá Deloitte kynnti innri endurskoðunaráætlun Strætó fyrir árið 2022. Áætlunin tilgreinir þau verkefni sem stefnt er að vinna á árinu og tekur til þátta á sviði innra eftirlits, áhættustýringar og stjórnarhátta. Áætlunin gerir ráð fyrir að innan þessara þátta verði valdir fimm mikilvægir þættir í starfsemi Strætó sem vinna skal að. Þá er gert ráð fyrir fundi með endurskoðunarnefnd í lok úttektar og í kjölfarið með stjórn.


2. Árshlutauppgjör janúar-september

Elísa Kristmannsdóttir fjármálastjóri Strætó kom fyrir fundinn og kynnti 9 mánaða árshlutauppgjör Strætó.

Rekstrarniðurstaða var neikvæð um 1.069 m.kr, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 93 m.kr. Lakari afkoma skýrist einkum af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun tímabilsins gerði ráð fyrir skilaði sér ekki sem rekja má meðal annars til heimsfaraldurs af völdum Covid-19 veirunnar fyrstu tvo mánuði ársins. Fargjöld voru 132 m.kr. undir áætlun og rekstrarkostnaður að undanskildu Pant akstursþjónustu var 655 m.kr. umfram áætlun. Niðurskurður sem gert var ráð fyrir í upphafi árs kom ekki til framkvæmda fyrr en í apríl 2022, einnig má rekja aukningu gjalda til hækkunar á aðfangakostnaði og verðlagsbreytinga á vísitölutengdum samningum.

Heildareignir samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok samtals 3.369 m.kr. og heildarskuldir voru 3.395 m.kr. Eigið fé var neikvætt um 255 m.kr. Eiginfjárhlutfall félagsins var neikvætt um 6,7%. Handbært fé nam 613 m.kr. þar af eru 400 m.kr. eyrnamerktar grænni fjárfestingu sem búið er að ráðstafa að hluta í kaup á umhverfisvænum vögnum, sem gert er ráð fyrir að komi næsta sumar. Heimfaraldur kórónuveiru hefur haft mikil fjárhagsleg áhrif á starfsemi félagsins síðustu tvö ár og hefur fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega frá upphafi faraldurs. Í desember 2021 tók Strætó 300 m.kr. rekstrarlán, horfur eru á að lausafjárstaða verði erfið fram eftir ári 2022. Sveitarfélögin sem standa að Strætó hafa samþykkt að veita aukaframlag upp á um 520 m.kr. sem tryggir greiðsluhæfi út árið 2022. Enn fremur sé gert ráð fyrir að framlag hækki til viðbótar um 616 m.kr í fjárhagsáætlun næsta árs, þannig að sveitarfélögin leggja um 1.130 m.kr. meira til rekstrar Strætó, en á árinu 2022.

Framkvæmdastjóri fór yfir að enn sé beðið eftir niðurstöðu um hvernig ríkið ætli að bæta upp fyrir áföll Strætó vegna Covid, líkt og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Fór hann yfir hvernig staðið hefði verið að málum í höfuðborgum Norðurlanda í og eftir Covid. Til frekari aðgerða þarfa að ráðast í til að styrkja fjárhag félagsins, m.a. með auknum framlögum frá eigendum og ríkinu. Greiningarvinna er í gangi sem miðar að því að skoða hvað þarf að gera til að  styrkja fjárhag félagsins og heldur sú vinna áfram.

Árshlutauppgjör Strætó eru ekki endurskoðuð og kom það til umræðu á fundinum að breyta því fyrirkomulagi. Framkvæmdastjóra var falið að skoða nánar möguleika til breytinga með því markmiði að endurskoða árshlutauppgjör.

Stjórn samþykkir árshlutauppgjör fyrir janúar til september 2022 með rafrænni undirritun.


3. Eigendastefna Reykjavíkurborgar

Fulltrúar Reykjavíkurborgar ásamt fulltrúa Strategíu komu fyrir fundinn og kynntu eigendastefnu borgarinnar. Með eigendastefnunni er mörkuð skýr stefna um eignarhald Reykjavíkurborgar í einkaréttarlegum fyrirtækjum og byggðasamlögum ásamt því að kveða á um skipulag og stjórnarhætti Reykjavíkurborgar vegna meðferðar eigandavalds. Jafnframt eru tilgreindar þær kröfur sem gerðar eru til skipulags og stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem eigendastefnan nær til.


4. Útvistun

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu útvistunarmála en unnið er að gerð áhættumats fyrir næsta útboð á akstri sem fyrirhugað er á árinu 2023 og akstur hefjist 2024. Þá fór framkvæmdastjóri yfir áhrif mengunarstaðla vagna verktaka miðað við  vagna Strætó. Losun vagna Strætó á NOx og Pm er meiri en á vögnum verktaka. Farið var yfir samanburð á kostnaði skv. KPMG skýrslu sem unnin var árið 2020.

Önnur mál

  • Fyrir fundinum lá fyrirspurn frá fulltrúa Sósíalistaflokksins um verktakagreiðslur. Framkvæmdastjóra er falið að svara fyrirspurninni.

Fundi slitið kl. 10:00.