Föstudaginn 25. febrúar 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. Fundurinn hófst kl. 11:00 og fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.
Mætt voru:
- Hjálmar Sveinsson (HS)
- Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
- Rúnar Bragi Guðlaugsson (RBG)
- Gunnar Valur Gíslason (GVG)
- Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ)
Helga Ingólfsdóttir (HI) boðaði forföll.
Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs.
1. Áhættumat hjá Strætó
Elísa Kristmannsdóttir, deildarstjóri fjármála, kom á fundinn og fór yfir áhættustýringarskjal og áhættustefnu Strætó. Búið er að uppfæra áhættustýringarskjal og yfirfara með stjórnendum. Áhættuþættir hafa aukist í rekstri Strætó og hefur verið gripið til mótvægisaðgerða til að draga úr þeim.
2. Fundir með hagsmunaaðilum
Stjórn fól framkvæmdastjóra að boða til opins fundar stjórnar með hagsmunaaðilum félagsins í byrjun apríl.
3. Vagnaútboð
Útboðsgögn vegna fyrirhugaðs vagnakaupaútboðs voru lögð fram til afgreiðslu. Gögnin eru yfirfarin af sérfræðingi hjá Innkaupadeild Reykjavíkurborgar, tveimur lögmönnum hjá Borgarlögmanni ásamt sérfræðingum hjá Mannviti sem sá um að útbúa gögnin í samráði við stjórnenda rekstrarsviðs og sérfræðingi hjá Strætó.
Um er að ræða kaup á rafknúnum strætisvögnum af minni gerðinni, þ.e. allt að 13 sæta vögnum sem áætlað er að fari í notkun á minni leiðum.
Stjórn samþykkir að fela framkvæmdastjóra að bjóða út kaup á vögnum á grundvelli fyrirliggjandi gagna og í samræmi við fjárhagsáætlun 2022.
4. Hagræðing ársins
Framkvæmdastjóri lagði fram til afgreiðslu tillögu að hagræðingu í leiðakerfinu árið 2022. Tillagan er í samræmi við markmið fjárhagsáætlunar félagsins 2022.
Stjórn samþykkir framlagða tillögu.
Umfjöllun um lausafjárstöðu félagsins það sem af er ári en fyrir liggur að sjóðsstaða félagsins er naum um þessar mundir.
Framkvæmdastjóra var falið að taka saman yfirlit yfir áætlaða lausafjárstöðu félagsins út árið 2022 og kalla eftir eigendafundi þar sem fjárhagsstaða félagsins og áformuð hagræðing í leiðakerfinu árið 2022 verði kynnt.
5. Kynning á stöðu Nýs leiðanets
Ragnheiður Einarsdóttir og Sólrún S. Skúladóttir, sérfræðingar á skipulagssviði Strætó kynntu stöðuna á Nýju leiðaneti framtíðar almenningssamgangna. Fundað hefur verið með aðildarsveitarfélögum Strætó og fleiri hagsmunaaðilum.
Næstu skref eru að kynna fyrir eigendum stöðuna og í framhaldinu verða kynningarfundir fyrir almenning.
6. Greiðslukerfið - staðan
Daði Áslaugarson, deildarstjóri upplýsingatæknimála kom á fundinn og fór yfir stöðu á innleiðingu greiðslukerfisins. Komið hafa upp ýmsir byrjunarörðugleikar sem unnið er að lausn á.
7. Kynning á niðurstöðum spurningarvagns Prósents.
Guðmundur H. Helgason, fjölmiðlafulltrúi Strætó kom á fundinn og kynnti niðurstöðu úr spurningavagni Prósents, sem Strætó tekur reglulega þátt í.
8. Önnur mál
- Ný tegund skilta á stoppustöðvum. Guðmundur H. Hreiðarsson, fjölmiðlafulltrúi kynnti nýja útfærslu á tímatöfluskiltum sem stendur til að setja upp á stoppustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Skiltin verða aðgengileg fyrir blinda og sjónskerta og með QR kóða á rauntímaupplýsingar hvers skýlis.
Engin önnur mál
Fundi slitið kl. 13:00