Föstudaginn 28. janúar 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs.  Fundurinn hófst kl. 11:00 og  fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.


Mætt voru: 

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
  • Rúnar Bragi Guðlaugsson (RBG)
  • Gunnar Valur Gíslason (GVG)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI)

Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ) boðaði forföll.

Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs.


1. Fjárhagsáætlun Strætó 2022, endurskoðuð áætlun

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun í ljósi þjóðhagsspár sem gefin var út í nóvember 2021, eftir samþykkt fjárhagsáætlunar Strætó 2022-2025. Í ljósi breyttra forsenda frá gildandi þjóðhagsspá við gerð fjárhagsáætlunar áætla stjórnendur að rekstrargjöld Strætó muni  aukast um 120 m.kr. á árinu 2022 frá samþykktri fjárhagsáætlun.

Stjórn felur stjórnendum félagsins að útfæra mótvægisaðgerðir í rekstri, þ.á.m. verði skoðaðar leiðir til að fella niður/breyta síðustu ferðum innan dagsins, þannig að ekki þurfi að koma til hækkunar fjárframlaga vegna breyttrar þjóðhagsspár umfram það sem gert er ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun Strætó.


2. Gagnastuldur – staðan

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu mála vegna gagnastuldar og svarbréf Strætó bs., dags. 25.01.2022, til Persónuverndar. Fundað hefur verið með hagsmunasamtökum og fleiri aðilum vegna málsins. Unnið er áfram að greiningu gagnastuldarins og er skýrslu að vænta á næstunni frá netöryggisfyrirtækinu Syndis sem verið hefur stjórnendum félagsins til ráðgjafar og aðstoðar í málinu frá því það kom upp.


3. Útboð á akstri

Lilja Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur frá VSB verkfræðistofu, kom inn á fjarfundinn og kynnti niðurstöður skoðunar útboðsfyrirkomulags á Norðurlöndunum vegna aðkeypts aksturs. Auk þess lagði framkvæmdastjóri fram vinnuskjal um samanburð á kjarasamningum hjá Strætó og á almennum markaði.

Í framhaldi af kynningu dagsins mun VSB verkfræðistofa skila framkvæmdastjóra skýrslu um útboðsfyrirkomulag vegna aðkeypts aksturs strætisvagna á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því mun framkvæmdastjóri í samráði við formann óska eftir eigendafundi til að kynna skýrslu VSB og leita eftir afstöðu eigendavettvangs Strætó til útboðsfyrirkomulags í áformuðu næsta útboði félagsins á akstri strætisvagna.


4. Farþegatalningar 2021

Sólrún Svava Skúladóttir, sérfræðingur á skipulagssviði Strætó, mætti til fjarfundarins og kynnti niðurstöður farþegatalninga fyrir árið 2021. Heildarfjöldi innstiga árið 2021 var tæp 9,5 milljón  innstig og hafði fjölgað um tæp 8% frá árinu 2020. Fjöldin innstiga 2021 var um 80% af fjölda innstiga 2019 sem var síðasta heila árið fyrir COVID.


5. Gæða- og öryggismál

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs, kynnti tölfræði gæða- og öryggismála hjá Strætó fyrir árið 2021. Fram kom að heildarfjöldi slysa 2021 var 147 sem er um 10 slysum færra en árið 2020. Fjöldi ábendinga til Strætó fjölgaði frá árinu 2020, en fylgni er milli fjölda ábendinga og fjölda innstiga.


6. Pant akstursþjónusta - staðan

Erlendur Pálsson, sviðstjóri akstursþjónustunnar Pant kynnti stöðuna og rekstraruppgjör fyrir árið 2021. Árið 2021 var fyrsta heila akstursárið eftir útboð á akstursþjónustunni á árinu 2020. Heildaraksturskostnaður árið 2021 var í samræmi við áætlun ársins. Fjöldi ferða hjá notendum þjónustunnar jókst frá árinu 2020 þrátt fyrir heimsfaraldur COVID 19.


7. Bréf frá Umboðsmanni barna

Í kjölfar svarbréfs framkvæmdastjóra og stjórnarformanns f.h. stjórnar, dags. 08.01.2022, við bréfi Umboðsmanns barna frá 03.12.2021 varðandi breytingu á gjaldskrá ungmenna sem tók gildi 16.11. 2021, var lagt var fram nýtt bréf frá Umboðsmanni barna dags. 24.01.2022 vegna gjaldskrárbreytingar sem varða ungmenni.

Stjórn felur framkvæmdastjóra og stjórnarformanni að svara bréfinu í samræmi við umræður á fundinum.


8. Samstarfssamningur við Vetnis

Fyrir fundinum lágu drög að viðauka við samstarfssamning Strætó og Vetnis ehf. um það hvort hagkvæmt sé að nota vetni á strætisvagna, en upphaflegur samningur aðilanna er frá 15.3.2021. Viðaukinn varðar áframhaldandi samstarf aðilanna til 31.12.2022.

Stjórn samþykkir áframhaldandi samstarf aðilanna um hagkvæmni þess að nota vetni á strætisvagna og felur framkvæmdastjóra að undirrita viðaukasamninginn fyrir hönd Strætó bs.


9. Önnur mál

  • Lagt fram bréf dags. 06.01.2022 frá íbúaráði Árbæjar- og Norðlingaholts vegna Nýs leiðanets.

Engin önnur mál

Fundi slitið kl. 13:00