Strætó bs. er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Meginhlutverk byggðasamlagsins er að veita almenna þjónustu á sviði almenningssamgangna, innan þess fjárhagsramma sem samlaginu er sett og nýta það fjármagn sem best til að koma til móts við óskir og væntingar viðskiptavina. Undir þetta hlutverk fellur rekstur við strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu, þjónustu við almenningssamgöngur á landsbyggðinni og akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldri borgara.
Stjórn Strætó
Stjórn Strætó er skipuð einum fulltrúa og einum til vara frá hverju aðildarsveitarfélagi. Fulltrúinn skal vera aðalmaður í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri viðkomandi sveitarfélags. Sömu skilyrði gilda um varamenn sem hver sveitarstjórn tilnefnir.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og skal formennska skiptast milli aðildarsveitarfélaganna. Kjörtímabil stjórnar er 2 ár.