„Góð ráð í Strætó“ var auglýsingaherferð sem gaf viðskiptavinum Strætó létt hollráð um hvernig eigi að haga sér í leiðakerfinu.
Myndirnar voru unnar af hjónunum David og Kelly Sopp og fengu þau innblástur frá bókinni þeirra „Safe Baby Handling Tips“.

Svæði fyrir kerrur og barnavagna er í miðjum vagninum. Mikilvægt er að gæta þess að barnavagninn eða kerran sé vel fest og að barnið sé ekki skilið eftir eitt.

Það er heimilt að vera með drykki í lokuðu íláti um borð í Strætó, eins og vatnsflöskur eða kaffimál með loki.

Gæludýr eru leyfð í Strætó utan annatíma. Heimilt er að ferðast með hund í hálsól og stuttum taumi í aftari hluta vagnsins. Hundar eiga að sitja á gólfinu hjá eiganda sínum.

Bjóðum öldruðum farþegum sæti um borð í vagninum.

Komdu þér eins vel fyrir og þú getur. Við mælum með góðri bók eða hlaðvarpi á meðan á ferðinni stendur.

Vagnstjórum er aðeins heimilt að hleypa fólki um borð í vagninn á biðstöðvum Strætó.

Við mælum með að gera sig sýnilega/n þegar vagninn nálgast biðstöðina. Gott ráð er að stíga út úr biðskýlinu og gefa vagnstjóranum merki.

Nýtum plássið á annatíma. Þegar vagninn er að fyllast er nauðsynlegt að dreifa álaginu og færa sig aftar í vagninn.

Viðræðum við vagnstjóra í akstri skal halda í lágmarki. Þumalputtareglan er að trufla vagnstjórann sem minnst á meðan á akstri stendur.

Hvað má taka með sér um borð? Meginreglan er sú að farþegi á að geta borið hlutinn einn síns liðs og að hluturinn megi ekki valda öðrum farþegum óþægindum eða skíta út vagninn.

Reiðhjól eru leyfileg um borð í Strætó ef pláss leyfir. Sérstakur staður er fyrir reiðhjól, kerrur, vagna og hjólastóla í miðju vagnsins.

Reykingar og notkun á rafrettum er bönnuð um borð í Strætó.

Búðu þig undir brottför. Gott er að styðja sig við súlurnar þegar vagninn fer af stað eða hemlar.

Við mælum með því að ýta tímanlega á bjölluna þegar þú ætlar út á næstu stöð.

David Sopp og Kelly Sopp, höfundar teikninganna.