Reglur og viðmið vegna gæludýra í Strætó á höfuðborgarsvæðinu.


Mynd frá Vísir.is
Mynd frá Vísir.is

Tímabil og gildissvæði

Gæludýr eru heimil í vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu undir ákveðnum skilyrðum. Ekki er heimilt að ferðast með gæludýr í landsbyggðarvögnum.

Óheimilt er að ferðast með gæludýr í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu á annatíma sem telst vera á virkum dögum, frá og með mánudegi og til og með föstudags, á milli kl. 07.00-09.00 og frá kl. 15.00-18.00.


Hvaða gæludýr mega ferðast með í Strætó?

Gæludýr sem leyfilegt er að ferðast með í strætó eru hundar og kettir sem eru skráðir í samræmi við samþykktir um hunda-og kattahald í hlutaðeigandi sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og nagdýr, fuglar, kanínur, froskar, skrautfiskar, skriðdýr og skordýr, enda sé heimilt að halda þessi dýr á Íslandi.

Hver farþegi sem ber ábyrgð á gæludýri má einungis bera ábyrgð á einu búri, einni tösku eða einum hundi í taumi í einu.


Aldur ábyrgðaraðila gæludýrs

Farþegi sem ferðast með gæludýr skal hafa náð 18 ára aldri og ber hann ábyrgð á dýrinu sem hann ferðast með.


Staðsetning í vagni og greiðsla fargjalda

Sá sem ferðast með dýr kemur í framdyrnar til að greiða fargjald og fer síðan með gæludýr inn um aftari/miðdyr vagnsins. Gæludýr skulu vera í aftari hluta vagnsins.

Farþegi sem ferðast með gæludýr skal tilkynna vagnstjóra um gæludýrið um leið og fargjald er greitt.

Ekki er greitt fargjald fyrir gæludýrið.


Aðbúnaður gæludýra sem ferðast er með í strætó

Gæludýr sem ferðast er með í strætó skulu vera í töskum eða lokuðum búrum sem tryggja að dýr geti ekki sloppið út. Búr eiga að vera vel skorðuð og geymd í kjöltu ábyrgðaraðila eða á gólfi við fætur hans.

Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að grípa til sérstakra aðgerða svo sem að nota munnkörfu og tryggja þar með öryggi farþega, dýrsins sjálfs eða annarra dýra.


Undantekning

Heimilt er að ferðast með hund í hálsól eða beisli og stuttum taumi sem er þannig gerðar að dýrið geti ekki smokrað sér úr því og tryggt að hundur sé ávalt undir stjórn ábyrgðaraðila hans. Hundar mega ekki vera í útdraganlegum taumi.

Sérþjálfaðir og sérmerktir leiðsöguhundar eru undanskildir þessum reglum.