Föstudaginn 13. nóvember 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30.
Mætt voru:
- Kristín María Thoroddsen (KMT)
- Örvar Jóhannsson (ÖJ)
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
- Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE )
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG)
Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson (JR) og Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri sem ritar fundagerð.
1. Kosning aðalmanns - Kópavogur
Lagt var fram bréf frá Kópavogi þar sem tilkynnt var að Andri Steinn Hilmarsson hefði verið kosinn aðalmaður í stjórn strætó og Hjördís Ýr Johnson kosin varamaður.
2. Níu mánaða uppgjör lagt fram til samþykktar
Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri fór yfir 9 mánaða uppgjöri. Hagnaður nam um 224 m.kr. Fargjöld hækkuðu um 8% frá sama tímabili í fyrra, en eru lítillega undir áætlunum. Launakostnaður er undir áætlun, sem skýrist af að ekki hefur verið gengið frá kjarasamningi við Sameyki og Samiðn. Hækkun á rekstrarkostnaði vagna og aðkeyptri þjónustu má rekja til nýs samnings um útboð á akstri sem tók gildi um miðjan ágúst. Strætó hefur fengið viðbótarframlag upp á 188 m.kr. vegna hærri kostnaðar við aðkeyptan akstur. Viðhaldskostnaður var óvenju hár á fyrra tímabili, sem má rekja til háan aldurs vagnflotans. Hins vegar hefur viðhaldskostnaður verið lægri á yfirstandandi tímabili, þar sem umfangsmiklar viðgerðir voru framkvæmdar á fyrra tímabili til að bæta ástand vagnanna. Þrátt fyrir framangreindar aðgerðir er vagnfloti Strætó enn of gamall, sem skapar áhættu í rekstri og hættu á þjónustuskerðingu. Til að bregðast við þessari alvarlegu stöðu hefur Strætó leigt þrjá vagna, auk þess sem í skoðun er að bæta einum við. Jafnframt hefur verið fjárfest í tveimur nýjum vögnum, sem stefnt er að verði teknir í notkun fyrir áramót. Reksturinn hefur styrkst frá fyrra tímabili, með jákvæðri rekstrarniðurstöðu, auknu veltufé frá rekstri, betri innheimtu og hækkun á handbæru fé. Rekstur Strætó er á réttri leið, en þó skortir enn nægjanlegt fjármagn til að standa undir endurnýjun á flotanum.
Stjórn samþykkir árshlutareikning fyrir 1. janúar til 30. september 2024.
3. Starfsáætlun 2025
Drög að starfsáætlun voru kynnt og er stefnt að samþykki hennar á næsta stjórnarfundi. Ábendingar og athugasemdir skal senda á framkvæmdastjóra.
4. Gjaldskrárstefna - yfirferð
Á fundinum var lagt fram minnisblað um gjaldskrá Strætó og áhrif hennar á sölu og notkun.
Í samanburði við norrænar borgir eru tímabilskort hér á samkeppnishæfu verði, en stök fargjöld töluvert dýrari. Þjónustustig í samanburðarborgunum er hærra, sem eykur virði þjónustunnar í huga notenda. Hjá Strætó hefur þjónusta dregist saman samhliða, sem getur haft neikvæð áhrif á eftirspurn eftir þjónustu almenningssamgangna.
Skv. gjaldskrástefnu Strætó er gjaldskrá endurskoðuð tvisvar á ári m.t.t. til hækkana aðfanga í rekstri félagsins. Velt var upp möguleikum á breyttu áskriftarmódeli. Stjórn fól stjórnendum að bera saman fargjöld við ráðstöfunartekjur og undirstrikaði mikilvægi þess að gjaldskrárhækkanir fylgi þjónustuaukningu. Málið verður tekið aftur fyrir á næsta stjórnarfundi.
5. Leiga á rafvögnum
Umfjöllun fór fram um stöðu vagnaflotans, þar sem skoðaður var möguleikinn á skammtímaleigu vagna. Kannaðir voru möguleikar á leigu rafvagna. Lagt til að stjórn veiti framkvæmdastjóra heimild til að skoða þennan valkost nánar og afla álits eigenda á því hvort rétt sé að bjóða út langtímaleigu á rafvögnum til 8–10 ára.
6. Samgöngusáttmálinn – staðan
Í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er lögð sérstök áhersla á að styrkja almenningssamgöngur með því að stofna sameiginlegt félag í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Hlutverk félagsins verður að sjá um skipulag og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að félagið hefji starfsemi um næstu áramót. Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), og Birgir Björn Sigurjónsson, ráðgjafi, kynntu stöðu mála og fór yfir starf stýrihóps sem settur var á laggirnar til að undirbúa stofnun þessa nýja félags.
7. Starfskjaranefnd - starfsreglur
Farið var yfir drög að starfsreglum starfskjaranefndar.
8. Snertilausar greiðslur og staðgreiðsla
Frá byrjun október hefur verið í boði að greiða fargjöld í strætisvögnum með snertilausum greiðslum. Þó að þjónustan hafi ekki enn verið formlega auglýst er hún nú í lokaprófunum, þar sem unnið er að því að fínstilla kerfið. Viðskiptavinir hafa tekið þessari nýjung vel og nýta hana í auknum mæli. En samhliða öllum nýjum tæknilausnum hefur reiðufé dregist verulega saman undanfarin ár eins og áætlun gerði ráð fyrir. Frá árinu 2015 hefur notkun reiðufjár í strætisvögnum dregist saman um 58%. Með innleiðingu snertilausra greiðslumöguleika er gert ráð fyrir enn frekari samdrætti í reiðufjárnotkun. Umsýsla tengd núverandi reiðufjárlausnum er kostnaðarsöm, þar sem hún krefst viðhalds á sérhönnuðum baukum sem eru orðnir gamlir og úreltir. Þegar snertilausar greiðslur verða komnar í fulla virkni, er áformað að hætta að taka við reiðufé í vögnum. Samhliða verður unnið að því að auka aðgengi að farmiðlum með því að koma þeim í sölu á fleiri stöðum, til að tryggja að breytingin hafi sem minnst áhrif á notendur. Stjórnendum hefur verið falið að útbúa minnisblað þar sem lagt er fram hvernig hægt er að útfæra þessa breytingu á sem áhrifaríkastan og notendavænstan hátt, með það að markmiði að lágmarka áhrifin á viðskiptavini.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 10:00.