Föstudaginn 5. apríl 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 7:30.
Mætt voru:
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
- Lovísa Jónsdóttir (LJ)
- Kristín Thoroddsen (KT)
- Hrannar Bragi Eyjólfsson (EBH)
- Alexandra Briem (AB)
Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð og Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri.
1. Ársreikningur Strætó og endurskoðunarskýrsla árið 2023
Sturla Jónsson endurskoðandi frá Grant Thornton og Lárus Finnbogason formaður endurskoðunarnefndar Strætó tóku sæti á fundinum undir þessum lið.
Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri fór yfir ársuppgjör fyrir árið 2023. Fargjaldatekjur ársins eru á áætlun og jukust um 18% milli áranna. Farþegafjöldi jókst um 14% milli áranna og er sá mesti frá því rafrænar talningar hófust. EBITDA er jákvætt um tæpar 50 m.kr. Rekstrarkostnaður vagna heldur áfram að aukast samhliða hækkandi aldurs vagna. Gjaldfært er um 258 m.kr. vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá Lífeyrissjóðnum Brú vegna starfsmanna sem náð höfðu 60 ára aldri eða hafið töku lífeyris sem höfðu verið skildir eftir í uppgjöri vegna lífeyrissjóðsmála á árinu 2017. Eigið fé Strætó er því neikvætt í lok árs 2023 um 364 m.kr. Rekstrarhæfi Strætó hefur verið tryggt með auknum framlögum frá eigendum til skemmri tíma. Jafnframt eigi eftir að leysa fjármögnun vegna endurnýjun vagnaflotans og orkuskipta. Bentu endurskoðandi og formaður endurskoðunarnefndar að það væri ekki æskileg staða og huga þurfi að aðgerðum til lengri tíma til að snúa þessari þróun við.
Stjórn samþykkti ársreikning Strætó bs. fyrir árið 2023.
Sturla og Lárus víkja af fundi.
2. Staðgreiðsla fargjalda
Staðgreiðsla hefur minnkað og er innheimtuaðferðin mjög gamaldags. Framkvæmdastjóra var falið að skoða hvernig hægt væri að gera breytingar á innheimtu staðgreiðslufargjalda til framtíðar.
3. Lífeyrissjóðsmálin
Framkvæmdastjóri fór yfir yfirlýsingu Strætó í tengslum við uppgjör þeirra starfsmanna sem náð höfðu 60 ára aldri og skildir voru eftir í uppgjörinu 2017. Tryggja á að eingöngu þeir starfsmenn sem störfuðu hjá Strætó séu í því uppgjöri.
Stjórn Strætó fól framkvæmdastjóra að senda formlegt svar til lífeyrissjóðsins Brúar vegna starfsmanna sem komnir voru á snemmtöku lífeyris vegna 95 ára reglunnar og lífeyrissjóðurinn hefur tilkynnt að hann muni hefja innheimtu vegna. Svarið byggir á fyrirliggjandi lögfræðiáliti sem unnið var fyrir stjórn Strætó.
4. Fargjaldatekjur
Framkvæmdastjóri fór yfir þróun fargjaldatekna fyrstu þrjá mánuði ársins. Tekjur eru lítillega undir áætlun. Sala árskorta er með mesta frávikið.
Magnús Örn Guðmundsson, formaður stjórnar vék af fundi vegna vanhæfis vegna næsta liðar og tók Alexandra Briem varaformaður við stjórn fundar.
5. Útboð á akstri
Umræður um næstu skref stjórnar í framhaldi af niðurstöðu eigendafundar miðvikudag 3. apríl 2024. Stefnt að því að boða til vinnufundar fljótlega í maí.
Önnur mál
Fleira ekki rætt, fundi slitið um 9:15.