Föstudaginn 1. nóvember  2023 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl.  08:30. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Þór Sigurgeirsson (ÞS)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sat einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Hæfismál

Stjórnarformaður Strætó vakti máls á því þegar hann tók við sem stjórnarformaður að hann gæti ekki tekið þátt í ákvörðunum sem snerta félagið Icelandia ehf, þar sem Stefnir hf., félagið sem hann vinnur fyrir á hluti í Icelandia ehf, sem á hlut í Hópbifreiðum Kynnisferða ehf sem er einn bjóðanda í útboði um akstur og  vék hann sæti á fundinum og óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað.

Undirritaður óskar eftir að víkja sæti í ákvörðunartöku á verktaka í útboði fyrir akstur Strætó bs. Kemur þetta til vegna starfa minna fyrir Stefni hf., sem er sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Arion banka. Þar gegni ég starfi forstöðumanns hlutabréfa og blandaðra sjóða.

Eins og ég hef gert grein fyrir á stjórnarfundi á framtakssjóður í stýringu Stefnis hf. hlut í Icelandia sem á hlut Kynnisferðum. Um er að ræða minnihluta, eða liðlega 20%. Framtakssjóðir heyra ekki undir mitt svið og þurfa að vera skýrt aðskildir í rekstri Stefnis skv. lögum og reglum.

Það er engu að síður mat mitt að það komi ekki til greina að taka þátt í vali á rekstraraðila, enda eru ofangreind tengls þess eðlis að draga megi óhlutdrægni mína í efa. Ég lýsi mig því vanhæfan í ákvörðunartöku í útboði fyrir akstur Strætó.

Magnús Örn Guðmundsson

Stjórnarformaður Strætó

Fyrir liggur minnisblað frá Guðmundi Siemsen, lögfræðingi, að beiðni Strætó þar sem fjallað er um hæfismál.

Stjórn Strætó bs. fellst á að Magnús víki sæti við meðferð málsins.


2. Útboð á akstri nr. 15887

Guðmundur Siemsen, lögfræðingur frá Advel og Sigurður Guðjón Jónsson, ráðgjafi frá Mannviti komu á fundinn og reifuðu stöðuna á útboðinu og hver næstu skref gætu orðið. Opnun tilboða fór fram 28. september 2023 og bárust tilboð frá þremur aðilum, sem reyndust öll vera hærri en kostnaðaráætlun Strætó. Fjallað hefur verið um niðurstöðu útboðsins á nokkrum fundum stjórnar og á eigendafundi. Tillaga framkvæmdastjóra er að hafna öllum tilboðum í útboðinu sem óaðgengilegum með vísan til þess að þau eru umfram kostnaðaráætlun. Stjórn samþykkir tillöguna og heimilar framkvæmdastjóra að ráðast í nýtt innkaupaferli í samræmi við umræður á fundinum. Á næsta fundi stjórnar verður tillaga um fyrirkomulag innkaupaferlisins lögð fram af framkvæmdastjóra, lögfræðingi og ráðgjafa.


3. Kjarasamningsviðræður við Sameyki

Framkvæmdastjóri kynnti nýjan kjarasamning við Sameyki. Samningur gildir til 31. mars 2024 og lagði framkvæmdastjóri til að hann yrði samþykktur.

Stjórn samþykkir framlagðan kjarasamning.


Önnur mál

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:30.