Föstudaginn 19. maí 2023 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Margrét Vala Marteinsdóttir (MVM)

Fundinn sat einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.


1. Kjarasamningur Strætó og Samiðnar

Framkvæmdastjóri kynnti og lagði fram til samþykktar stjórnar kjarasamning Strætó og Samiðnar sem undirritaður var og samþykktur af félagsmönnum þann 11. maí sl. Meðaltalshækkun grunnlauna er 8,75% með hagvaxtaauka ársins 2022, en samningurinn er til eins árs, frá 01.04.2023-31.03.2024. Stjórn samþykkti kjarasamninginn.


2. Drög að árshlutauppgjöri janúar-mars

Elísa Kristmannsdóttir, deildarstjóri fjármála, kom fyrir fundinn og kynnti drög að árshlutauppgjöri janúar-mars 2023. Árshlutauppgjör janúar til mars verður lagt fram á næsta stjórnarfundi til samþykktar.


3. Endurskoðun gjaldskrár

Samkvæmt gjaldskrárstefnu Strætó er stefnt að endurskoðun gjaldskrár tvisvar á ári. Gjaldskrá var síðast hækkuð 1. október 2022 en frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,2% og Strætóvísitala um 3,5%. Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu að hækkun gjaldskrár sem nemur 3,6% af stökum fargjöldum og 3,3% af tímabilskortum. Stjórn samþykkti tillöguna um hækkun gjaldskrár frá og með 1.7.2023


4. Farþegatölur

Framkvæmdastjóri fór yfir farþegafjölda aprílmánaðar. Fjöldi innstiga fyrstu þrjá mánuði ársins náðu yfir eina milljón í hverjum mánuði sem er met frá því rafrænar talningar hófust í vögnum Strætó. Fjöldi innstiga í apríl voru ríflega 943.000 (páskar og frídagar) sem þó er um 55.000 fleiri innstig en í apríl 2019.

Farþegatölur

Farþegatölur

5. Nýtt leiðanet, staða og rekstraráætlun

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu nýs leiðanets og rekstraráætlunar. Áfangaskýrsla 2 (leiðanets) er í vinnslu og er gert ráð fyrir útgáfu hennar og samþykki á 2. ársfjórðungi þessa árs en fyrir það þarf að skoða og taka endanlega ákvörðun um leið D í Hafnarfirði, leið E í Mosfellsbæ og leið H um Stjörnugróf og Fossvogsbrún í Reykjavík.

Á árinu 2022 var kostnaðaráætlun leiðanetsins uppfærð m.v. áætlað verðlag 2023. Þar er áætlað að heildarkostnaður verði rúmir 14 milljarðar króna árið 2034, þegar þriðja áfanga innviðauppbyggingar á að ljúka.


6. Samningsmál við Yutong (tafabætur)

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu samningsmála tafabóta vegna kaupa á rafvögnum árið 2018. Stjórn fól framkvæmdastjóra að vinna áfram að lausn mála.


7. Staða vagnaflotans og næstu skref

Framkvæmastjóri fór yfir stöðu vagnaflota Strætó. Undanfarin ár hafa fjárfestingar í vögnum ekki haldið í við endurnýjunarþörf og er því stór hluti vagna orðinn gamall sem leitt hefur af sér stóraukinn viðhalds- og rekstrarkostnað sem hækkar ár frá ári. Brýnt er að taka ákvörðun um vagnaflota Strætó sem allra fyrst svo halda megi viðunandi þjónustustigi. Framkvæmdastjóra var falið að vinna málið áfram og fara yfir frekari gögn á næsta stjórnarfundi.

Vagnastaða Strætó

Vagnastaða Strætó

Önnur mál

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 9:30.