Mánudaginn 15. ágúst 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs og hófst hann kl.  08:00. Fundurinn var haldinn að Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir (SH), sviðstjóri mannauðs- og gæðamála.


1. Árshlutauppgjör

Elísa Kristmannsdóttir fjármálastjóri kom inn á fundinn og kynnti 6 mánaða uppgjör Strætó. Tap af rekstrinum fyrstu 6 mánuðina er 599 m.kr. miðað við 245 m.kr. fyrstu 6 mánuði ársins 2021. Fargjaldatekjur jukust um 12% á milli ára en voru samt sem áður 9% lægri en áætlun ársins. Fyrstu tveir mánuðir voru erfiðir, COVID takmarkanir í gangi og erfiðleikar með nýtt greiðslukerfi. Þá jukust rekstrargjöld um 12% á milli ára og kemur það helst til vegna verðlagsbreytinga, launahækkana, olíuverðs og aukins viðhaldskostnaðar vagna umfram forsendur fjárhagsáætlunar.

Handbært fé var 733 m.kr. í lok tímabils. Þar af eru 400 m.kr. eyrnamerktar vagnakaupum og 347 m.kr. er fyrirframgreitt framlag eigenda.


2. Forsendur fjárhagsáætlunar 2023-2027

Framkvæmdastjóri fór yfir forsendur fjárhagsáætlunar 2023-2027. Yfirleitt eru niðurstöður þjóðhagsspár frá Hagstofu Íslands notaðar sem meginforsendur fyrir fjárhagsáætlun Strætó. Miklar breytingar hafa orðið á vísitölu síðustu mánuði; aukin verðbólga, hækkun launakostnaðar og hækkun olíuverðs. Þessir þættir hafa meðal annars sett rekstur Strætó úr skorðum og héldu því forsendur fyrri áætlunar ekki.

Ræða þarf sérstaklega breyttar forsendur fjárhagsáætlunar sem snúa meðal annars að rekstri, fjárfestingum, fjármögnun, framlögum eigenda og ríkisframlagi.


3. Olíuútboð

Fyrir fundinum lágu drög að útboði um kaup á dísilolíu fyrir vagna Strætó. Framkvæmdastjóra er falið að auglýsa útboð eftir olíu fyrir Strætó.


4. Næturakstur - tölfræði

Tímabundinn akstur sjö næturleiða um helgar hófst í júlí og er áætlað að aksturinn standi út septembermánuð. Allir leiðirnar utan eina eru með þrjá brottfarartíma úr miðborginni en ein er með fjóra brottfarartíma. Farþegafjöldi hverrar helgar er á bilinu 300 til 340 farþegar, að meðaltali 14 til 16 í hverri ferð, sem er undir væntingum. Staðan á næturakstri verður endurmetin í september.


Önnur mál

  • Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Klapp greiðslukerfið. Framkvæmdastjóra falið að svara fyrirspurninni.
  • Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samstarf Hopp og Strætó. Framkvæmdastjóra falið að svara fyrirspurninni.
  • Rætt var um frítt fyrir 11 ára og yngri en nokkur tilvik hafa komið upp þar sem börnum hefur verið vísað út úr vagninum.
  • Viðskiptavinir Strætó sem t.d. eru ekki með snjallsíma eða rafræn skilríki til greiðslu fargjalda. Strætó vinnur að lausn ásamt velferðarsviðum sveitarfélaganna.
  • Umræður um sýnileika almenningssamgangna í Leifsstöð
  • Akstur á hátíðisdögum, s.s. Sjómannadegi, 17. júní og Pride.

Fundi slitið kl. 09:55