Föstudaginn 1. júlí 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs.  Fundurinn hófst kl. 08:00 og  fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Alexandra Briem (AB)
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (HBE)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir (SH), sviðstjóri mannauðs- og gæðamála.


1. Skipan stjórnar

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga í vor skipuðu eigendur Strætó, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, eftirfarandi aðila í stjórn og varastjórn Strætó bs. Aðalmenn; Alexandra Briem, Reykjavík, Andri Steinn Hilmarsson, Kópavogi, Magnús Örn Guðmundsson, Seltjarnarnesi, Kristín Thoroddsen, Hafnafirði, Lovísa Jónsdóttir, Mosfellsbæ og Hrannar Bragi Eyjólfsson Garðabæ.

Varamenn: Gunnar Valur Gíslason, Garðabæ,  Hjálmar Sveinsson, Reykjavík, Ragnhildur Jónsdóttir, Seltjarnarnesi, Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði, Sigvaldi Egill Lárusson, Kópavogi og Örvar Jóhannsson, Mosfellsbæ. Fulltrúi Seltjarnes Magnús Örn Guðmundsson, var kosinn formaður stjórnar Strætó og fulltrúi Reykjavíkur, Alexandra Briem, varaformaður stjórnar, til tveggja ára.

Framkvæmdastjóra var falið að tilkynna til fyrirtækjaskrár breytta skipan stjórnar.

Samþykkt að stjórnarfundir verði haldnir fyrsta föstudag í hverjum mánuði frá kl. 7:45 – 9:30.

Næsti stjórnarfundur verður haldinn föstudaginn 12. ágúst 2022.


2. Vagnakaupaútboð

Strætó bauð út kaup á 9 minni (30 manna) rafvögnum þann 18. mars 2022, útboð nr. 15404. Tilboð voru opnuð þann 19. apríl s.l. og bárust tvö tilboð. Farið var yfir niðurstöðu tilboða á stjórnarfundi þann 29. apríl s.l. og stjórnarfundi þann 20. maí s.l.

Fyrir fundinum liggur minnisblað  dagsett 13. júní 2022 frá Mannviti þar sem fram kemur í mati valnefndar að fjárhagslegt og tæknilegt hæfi lægst bjóðanda sé uppfyllt. Niðurstaðan er sú að tilboð Tyrfingssonar hf., er metið gilt og uppfyllir öll skilyrði útboðsskilmála.

Stjórn heimilar framkvæmdastjóra að ganga að tilboði Tyrfingssonar í útboði nr. 15404.


3. Fjárhagsáætlun 2022 endurskoðuð

Á eigendafundi þann 23. maí s.l. lagði Strætó fram endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2022.

Framkvæmdastjóri fór yfir uppfærða fjárhagsáætlun ársins 2022, en rekstrartap ársins stefnir í að vera um 994 m.kr. Rekstrartekjur eru áætlaðar um 120 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld um 628 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Miklar hækkanir á aðföngum skýra kostnaðarhækkanir, sem eru langt umfram forsendur samþykktrar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022. Helstu kostnaðarliðir sem hækka mikið eru olía, aðkeyptur akstur og launakostnaður. Niðurstaðan bendir til þess að rekstrarafkoma Strætó versni um 750 m.kr. frá samþykktri áætlun ársins auk þess sem fyrir liggur að lausafjárstaða félagsins um þessar mundir er ekki viðunandi.

Fram kemur að fjárþörf Strætó sé um 750 m.kr. fyrir árið 2022. Niðurstaða eigendafundar er sú að fallist er á frekari fjárþörf til handa Strætó og verður erindi sent á aðildarsveitarfélögin þar sem staðan er kynnt.

Stjórn óskar eftir því að framkvæmdastjóri í samráði við stjórnarformann, útbúi erindi til aðildarsveitarfélaganna þar sem óskað verður eftir auknum fjárframlögum til Strætó bs.


4. Önnur mál

  • Frítt fyrir ungmenni á grunnskólaaldri.
  • Næturstrætó í Reykjavík.
  • Greiðslukerfið Klapp.
  • Pant akstursþjónusta.

Framkvæmdastjóri fór stuttlega yfir stöðuna á liðum a, c og d, utan næturstrætó sem rætt var um sérstaklega,  og var ákveðið að taka málin formlega upp á næsta stjórnarfundi.

Stjórn samþykkti að fela framkvæmdastjóra að koma með minniblað um nánari útfærslu og kostnað vegna næturstrætó.