Föstudaginn 20. maí 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs.  Fundurinn hófst kl. 08:00 og  fór fram á Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Margrét Friðriksdóttir (MF)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI)
  • Ásgeir Sveinsson (ÁS)
  • Gunnar Valur Gíslason (GVG)
  • Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir (SH), sviðstjóri mannauðs- og gæðamála.


1. Dómsmál Strætó gegn Teiti Jónasson ehf.

Fyrir fundinum lá minnisblað dags. 04.05.2022 til stjórnar frá Antoni Birni Markússyni hrl., lögmanni Strætó bs. í dómsmáli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 888/2019. Lögmaðurinn var mættur til fundar við stjórn og reifaði niðurstöðu héraðsdóms í málinu sem á rætur sínar að rekja til lokaðs akstursútboðs sem Strætó bs. stóð fyrir í deseber 2009. Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms er Strætó dæmt til að greiða Teiti Jónassyni skaðabætur upp á um 205 m.kr. auk vaxta og dráttarvaxta og málskostnaðar, 5,1 m.kr.

Í lok umræðu samþykkti stjórn að fela lögmanninum að áfrýja fyrirliggjandi niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar.


2. Fjárhagsáætlun 2022 endurskoðuð

Áframhaldandi umfjöllun frá síðasta fundi.

Framkvæmdastjóri fór yfir uppfærða fjárhagsáætlun ársins 2022, en rekstrartap ársins stefnir í að vera um 994 m.kr. Rekstrartekjur eru áætlaðar um 120 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld um 628 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Miklar hækkanir á aðföngum skýra kostnaðarhækkanir, sem eru langt umfram forsendur samþykktrar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022. Helstu kostnaðarliðir sem hækka mikið eru olía, aðkeyptur akstur og launakostnaður. Niðurstaðan bendir til þess að rekstrarafkoma Strætó versni um 750 m.kr. frá samþykktri áætlun ársins auk þess sem fyrir liggur að lausafjárstaða félagsins um þessar mundir er ekki viðunandi.

Stjórn fól framkvæmdastjóra að óska eftir eigendafundi til að ræða stöðuna og næstu skref.


3. Reglur um fargjaldaálag

Skv. lögum nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi er Strætó bs. heimilt að leggja fargjaldaálag á farþega, sem nýta sér þjónustu á vegum Strætó bs., en greiða ekki rétt fargjald.

Framkvæmdastjóri kynnti drög að reglum um fargjaldaálag. Reglurnar þarf að senda til Innviðaráðuneytis til staðfestingar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda áður en þær öðlast gildi. Tillaga að gjaldskrá fylgir með reglunum. Ekki er gert ráð fyrir að fargjaldaálag verði lagt á börn undir 15 ára aldri en ef um endurtekin mál eru að ræða geta forráðamenn orðið ábyrgir fyrir fjárhagslegu tjóni Strætó vegna þessa.

Stjórn samþykkir reglur um fargjaldaálag og felur framkvæmdastjóra að senda reglurnar til Innviðaráðuneytis til staðestingar og auglýsingar í kjölfarið.


4. Árshlutauppgjör fyrir janúar til mars 2022

Framkvæmdastjóri lagði fram og kynnti þriggja mánaða uppgjör félagsins pr. 31. mars 2022. Árshlutauppgjörið er hvorki kannað né endurskoðað af endurskoðendum félagsins.

Tekjur eru 110 m.kr. undir áætlun og gjöld um 191 m.kr. yfir áætlun. Kostnaðarverðshækkanir hafa verið umfram forsendur fjárhagsáætlun 2022, sem skýrir frávikin í gjöldum. Viðskiptavinir eru færri en gert var ráð fyrir í áætlun, einnig hafa hnökrar verið í innheimtu í gegnum nýja rafræna greiðslukerfið.

Stjórn samþykkir árshlutauppgjör 31.03.2022. Stjórn og framkvæmdastjóri staðfesta uppgjörið með rafrænni undirritun.


5. Vagnakaupaútboð

Áframhaldandi umræða frá síðasta fundi.  Við yfirferð  fyrirliggjandi tilboða voru nokkur atriði bjóðenda  sem þarf að fá nánari skýringar á.

Beðið er svara áður en stjórn getur tekið ákvörðun í málinu.