Föstudaginn 29. apríl 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs.  Fundurinn hófst kl. 08:00 og  fór fram á Hesthálsi 14.


Mætt voru: 

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI)
  • Rúnar Bragi Guðlaugsson (RBG)
  • Gunnar Valur Gíslason (GVG)

Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ) boðaði forföll. Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs.


1. Leiðakerfi

Umræður um leiðakerfisbreytingar og hagræðingu á leiðakerfinu.


2. Fjöldi innstiga janúar-mars 2022

Ragnheiður Einarsdóttir og Valgerður H. Benediktsdóttir, sérfræðingar á skipulagssviði, fóru yfir innstigstölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Fjöldi innstiga er að aukast og er orðinn um 89% af innstigum fyrir sama tímabil 2019.


3. Kynningarátak til ungmenna

Framkvæmdastjóri kynnti kynningarátak til að hvetja ungmenni til að nota almenningssamgöngur í sumar og lagði til að boðið verði upp á frítt í strætó fyrir ungmenni á aldrinum 12 til 17 ára í júlí 2022. Stjórn samþykkti tillöguna og fól framkvæmdastjóra að útfæra í samræmi við umræður á fundinum.

Áætlaður kostnaður við kynningarátakið er um 5 m.kr.

Karen Halldórsdóttir fulltrúi Kópavogs bókaði eftirfarandi: Styður tillöguna en hefði viljað ganga lengra og gefa öllum frítt í strætó í júlí mánuði til að kanna samband á milli verðs og áhuga á notkun strætó. Hvetur komandi stjórn að fara í slíkt átak á næsta kjörtímabili.


4. Öryggisfrávik – skýrsla Syndis

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðuna og niðurstöður Syndis á öryggisatviki sem átti sér stað í lok árs 2021.


5. Fjármál Strætó

Á stjórnarfundi þann 1. apríl 2022 fól stjórn framkvæmdastjóra að endurskoða fjárhagsáætlun ársins 2022, taka saman yfirlit yfir áætlaða þróun lausafjárstöðu félagsins út árið 2022 og meta hvort þörf sé að kalla eftir auknu fjárframlagi eigenda til að styrkja lausafjárstöðu Strætó bs. í ljósi mikið breyttra rekstrarforsendna félagsins á yfirstandandi ári.

Ný þjóðhagsspá sem birt var í mars 2022 sýnir gjörbreyttar forsendur frá áður útgefinni þjóðhagsspá sem gengið var út frá við gerð fjárhagsáætlunar 2022, til að mynda er nú reiknað með 22% hækkun olíuverðs á árinu 2022 í stað áætlaðrar lækkunar um 2% í fyrri þjóðhagsspá. Fyrir liggur að rekstrarkostnaður eigin vagna og aðkeypts aksturs er hærri en áætlað var vegna aukins launakostnaðar m.a. hagvaxtarauka, hækkunar olíuverðs og ýmissa aðfanga m.a. vegna stríðsástands í A-Evrópu svo og aukinnar verðbólgu á árinu 2022 frá því sem áður var reiknað með.

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2022 og kynnti áætlaða þróun lausafjárstöðu félagsins út árið 2022. Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að tekjur lækki um 120 m.kr. og að rekstrargjöld aukist um rúmar 600 m.kr. Niðurstaðan bendir til þess að rekstrarafkoma Strætó versni um 750 m.kr. frá samþykktri áætlun ársins auk þess sem fyrir liggur að lausafjárstaða félagsins um þessar mundir er ekki viðunandi.

Stjórn áréttar áhyggjur sínar af versnandi horfum í rekstri félagsins og felur framkvæmdastjóra að uppfæra kynningu sína í samræmi við umræður á fundinum, senda eigendavettvangi Strætó gögnin sem fyrst til upplýsingar ásamt því að uppfæra áætlunarskjölin til áframhaldandi umfjöllunar og afgreiðslu á næsta fundi stjórnar.


6. Stefnumótun - yfirferð

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs fór yfir helstu stefnur Strætó. Einnig var farið yfir stefnumótun frá 2022 og stöðu mála eftir hana.


7. Vagnakaup – opnun tilboða

Framkvæmdastjóri fór yfir niðurstöður tilboða sem bárust í kjölfar útboðs vegna vagnakaupa. Um er að ræða kaup á 9 rafknúnum minni strætisvögnum með að lágmarki  13 sætum. Tvö tilboð bárust, frá Tyrfingsson hf. og BL ehf. Tilboðin eru í yfirferð hjá Strætó og verða lögð fram til afgreiðslu stjórnar þegar niðurstaða þeirrar yfirferðar liggur fyrir.