Föstudaginn 1. apríl 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs.  Fundurinn hófst kl. 08:00 og  fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.


Mætt voru: 

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI)
  • Rúnar Bragi Guðlaugsson (RBG)
  • Gunnar Valur Gíslason (GVG)
  • Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ)

Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs.


1. Borgarlínan - staðan

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. kom á fundinn og fór yfir stöðu verkefna samgöngusáttmálans í byrjun apríl 2022.


2. Fjármál / vagnastaða

  • Lausafjárstaða

Framkvæmdastjóri fór yfir lausafjárstöðu félagsins og horfur í rekstri Strætó. Fyrir liggur að lausafjárstaða er undir áætlun og stjórn lýsir yfir áhyggjum sínum af þróun lausafjár félagsins það sem af er ári.

Tekjur fyrstu þriggja mánaða ársins eru undir áætlun, hagræðingaraðgerðir frestast inn í árið, aðkeyptur akstur og rekstrarkostnaður eigin vagna er hærri en áætlað var vegna aukins launakostnaðar (m.a. hagvaxtarauka), hækkunar olíuverðs og ýmissa aðfanga svo og aukinnar verðbólgu. Ný þjóðhagsspá, frá mars 2022, sýnir gjörbreyttar forsendur frá áður útgefinni þjóðhagsspá frá mars 2021 sem gengið var út frá við gerð fjárhagsáætlunar 2022, til að mynda er nú reiknað með 38% hækkun olíuverðs á árinu 2021 í stað áætlaðrar lækkunar um 2% í fyrri þjóðhagsspá.

Stjórn samþykkir að fela framkvæmdastjóra að endurskoða fyrir næsta fund stjórnar fjárhagsáætlun ársins 2022, taka saman yfirlit yfir áætlaða þróun lausafjárstöðu félagsins út árið 2022 og meta hvort þörf sé á þessu stigi að kalla eftir auknu fjárframlagi eigenda til að styrkja lausafjárstöðu Strætó bs. í ljósi mikið breyttra rekstrarforsendna félagsins á yfirstandandi ári.

 

  • Vagnastaða

Framkvæmdastjóri fór yfir vagnastöðu félagsins, þ.á.m. aldur vagna, fjölda ferða sem felldar voru niður  í janúar og febrúar vegna bilaðra vagna og hvernig hagræðingaraðgerðir koma til með að fækka vögnum í öllu leiðakerfinu. Hluti vagnaflotans orðinn gamall auk þess sem olía og ýmis aðföng eru að hækka mikið umfram forsendur fjárhagsáætlunar 2022.

Stjórn samþykkir tillögu framkvæmdastjóra um að samið verði við verktaka um að taka að sér annatímakeyrslu, þ.e. akstur á tilteknum leiðum milli kl. 7-9 að morgni og kl. 15-18 síðdegis með það að markmiði að halda uppi þjónustustigi á helstu leiðum Strætó á háannatímum.


3. Vinnustaðagreining

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðamála, fór yfir helstu niðurstöður vinnustaðagreiningar Strætó sem framkvæmd var í febrúar 2022 og samanburð einstakra þátta greiningarinnar við niðurstöður undanfarinna ára.


4. Upplýsingaöryggisstefna

Framkvæmdastjóri lagði fram til afgreiðslu tillögu stjórnenda  að upplýsingaöryggisstefnu Strætó.

Stjórn samþykkir fram lagða tillögu að upplýsingaöryggisstefnu Strætó.


5. Önnur mál

Engin önnur mál voru til umfjöllunar á fundinum.