Föstudaginn 7. janúar 2022 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. Fundurinn hófst kl. 11:00 og fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.
Mætt voru:
- Hjálmar Sveinsson (HS)
- Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
- Rúnar Bragi Guðlaugsson (RBG)
- Gunnar Valur Gíslason (GVG)
- Helga Ingólfsdóttir (HI)
- Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ)
Fundinn sátu einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs.
1. Innbrot í tölvukerfi Strætó
Erlingur Hjörleifsson, kerfisstjóri Strætó fór yfir innbrot í tölvukerfi Strætó sem átti sér stað í lok desember og hvaða vinnu var ráðist í til að girða fyrir frekara tjón. Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis fór yfir vinnu sem þeir hafa verið að vinna í greiningu og umfangi innbrotsins. Sigurður Már Eggertsson, persónuverndarfulltrúi fór yfir þá hlið sem snýr að persónuvernd þeirra gagna sem stolið var og hvernig notendur sem orðið hafa fyrir áhrifum af gagnastuldinum hafa verið upplýstir.
2. Fjármál Strætó
Framkvæmdastjóri fór yfir áhrif þjóðhagsspár sem gerð var í nóvember 2021, en samþykkt fjárhagsáætlun byggir á þjóðhagsspá frá því í mars 2021. Áhrifin eru þau að kostnaður aðfanga Strætó hækkar um rúmlega 120 m.kr. á árinu 2022. Umræður um hagræðingaraðgerðir standa enn yfir og verður áframhaldið á næsta stjórnarfundi. Framkvæmdastjóra var falið að upplýsa eigendur um áhrif breyttrar þjóðhagsspár og koma með á næsta fund nánari gögn um áhrif þess á rekstur Strætó.
3. Árlegt árangursmat stjórnar
Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs mun senda út könnun til stjórnarmanna vegna árlegs árangursmats stjórnar fyrir árið 2021.
4. Útboð á akstri
Framkvæmdastjóri fór yfir að núverandi samningar við verktaka um akstur renna út í ágúst 2024. Mikilvægt að hefja undirbúning að nýju útboði. Framkvæmdastjóra var falið að hefja undirbúning að nýju útboði á akstri í samræmi við verklag um útboð hjá Strætó. Gert er ráð fyrir að útboðsgögn verði tilbúin á árinu 2023.
5. Staðan á Nýju leiðaneti - Borgarlínuverkefnið
Þröstur Guðmundsson frá Betri samgöngum og Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri Vegagerðarinnar í Reykjavík komu á fundinn og fóru yfir stöðu vinnunnar við hönnun og tímaplan vegna Borgarlínuverkefnisins. Á vegum Betri samgangna er verið að vinna að skilgreiningu á því hvað telst til innviða og hvað telst til rekstrar vegna Nýs hágæðaalmenningssamgöngukerfis framtíðarinnar (Nýtt leiðanet Borgarlínu og almennra leiða).
6. Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar
Höskuldur Guðjónsson, umhverfisverkfræðingur hjá Reykjavíkurborg kom á fundinn og kynnti niðurstöðu mats á áhrifum nýs hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkurborgar á Strætó. Breytingin hefur óveruleg áhrif á ferðatíma vagna og ekki er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður aukist. Ráðist verður í að auka forgang vagna á umferðaljósum og skoða hraðahindranir án þess að ógna umferðaröryggi.
7. Bréf Umboðsmanns barna - gjaldskrá
Lagt var fram bréf Umboðsmanns barna varðandi gjaldskrárbreytingar á ungmennakortum.
Gjaldskrármál eru í stöðugri umræðu hjá stjórn og verður áfram.
Framkvæmdastjóra og stjórnarformanni var falið að svara bréfinu í samræmi við umræður á fundinum.
8. Önnur mál
Engin önnur mál.
Fundi slitið kl. 13:20