Föstudaginn 8. október 2021 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. Fundurinn hófst kl. 11:00 og fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.



Mætt voru:

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Karen E. Halldórsdóttir (KEH) á fjarfundi
  • Rúnar Bragi Guðbrandsson (RBG)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI).
  • Gunnar Valur Gíslason boðaði forföll sem og varamaður hans.
  • Sigrún Edda Jónsdóttir boðaði forföll.

Fundinn sat einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.

Elísa Kristmannsdóttir, deildarstjóri fjármála, sat einnig fundinn.


1. Fjárhags- og starfsáætlun 2022-2026

Á eigendafundi 4. október 2021 óskuðu fulltrúar eigenda eftir því að í stað aukins framlags eigenda á árinu 2022 kæmi til ný lántaka félagsins. Framkvæmdastjóri og deildarstjóri fjármála fóru yfir fjárhagsáætlun 2022 miðað við að tekið yrði rekstrarlán upp á um 300 m.kr. en að aðrar forsendur áætlunarinnar væru  þær sömu og kynntar voru á síðasta fundi stjórnar og eigenda. Samkvæmt áætlun áranna 2023-2026 er gert ráð fyrir að á því tímabili þurfi eigendur að leggja félaginu til aukið fjármagn.

Stjórn fól framkvæmdastjóra að boða til eigendafundar þar sem fyrirliggjandi tillaga að fjárhagsáætlun Strætó bs. 2022-2026 verði kynnt.


2. Lántaka

Á 340. fundi stjórnar þann 21.5.2021 samþykkti stjórn að heimila framkvæmdastjóra að sækja um lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 400 m.kr. til grænnar fjárfestingar í rafmagnsvögnum. Samþykkt stjórnar var staðfest á eigendafundi Strætó bs. þann 15.6.2021.

Á 345. fundi stjórnar þann 24.9.2021 óskaði stjórn eftir því við framkvæmdastjóra að skoða fleiri lánamöguleika. Tilboð barst frá Arion banka (viðskiptabanki félagsins) í grænt fjárfestingarlán og rekstrarlán til fimm ára. Framkvæmdastjóri fór yfir áhrif lántöku á fjárhagsstöðu Strætó til framtíðar, en fjárhagslegar kennitölur benda til að eigendur þurfi að leggja félaginu til aukið fjárframlag á næstu árum.

Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga samþykkti lánsumsóknina á fundi sínum þann 24.8.2021. Lánið er að fjárhæð 400 milljónir króna til allt að 8 ára, vextir eru fastir 4,5%, óverðtryggðir. Einungis greiðast vextir fyrstu sex árin og höfuðstóll lánsins greiðist með tveimur jöfnum greiðslum á síðustu tveimur árum lánstímans.

Stjórn samþykkir að fela framkvæmdastjóra að kalla eftir lánssamningi frá Lánasjóði sveitarfélaga og óska fyrir hönd stjórnar eftir nauðsynlegri ábyrgð frá aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins vegna lánsins en fyrir liggur að Lánasjóður sveitarfélaga krefst einfaldrar ábyrgðar og veðsetningar til tryggingar ábyrgðinni í tekjum sveitarfélaganna í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

Stjórn samþykkir jafnframt að leggja til við eigendavettvang að tekið verði rekstrarlán upp á um 300 m.kr. hjá viðskiptabanka félagsins á árinu 2022.


3. Framlenging aksturssamninga

Strætó bauð út akstur almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015, samningskaup nr. 13446. Voru samningar undirritaður í desember 2015 með upphafi samningstíma í ágúst 2016, annars vegar við Hagvagna ehf og hins vegar við Hópbíla Kynnisferðir hf. Samningstími beggja samninga var til 4  ára með heimild til framlengingar um 2×2 ár.

Fyrir fundinum lágu til afgreiðslu: samningur um framlengingu samnings Strætó bs. og Hagvagnar hf. og samningur um framlengingu samnings Strætó bs. og Hópbíla Kynnisferða ehf. Í báðum samningum kemur fram það mat stjórnenda Strætó bs. að akstursverktakar uppfylli skilyrði um framlengingu samnings og að samningar séu framlengdir um tvö ár, frá ágúst 2022 til ágúst 2024.

Stjórn samþykkir samningana og felur framkvæmdastjóra að undirrita þá fyrir hönd félagsins.


4. Önnur mál

Enginn önnur mál voru á dagskrá.

Fundi slitið kl. 12:15