Föstudaginn 24. september 2021 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. Fundurinn hófst kl. 11:00 og fór fram á Hesthálsi 14 og í gegnum fjarfundabúnað.



Mætt voru:

  • Hjálmar Sveinsson (HS)
  • Karen E. Halldórsdóttir (KEH)
  • Ásgeir Sveinsson (ÁS)
  • Gunnar Valur Gíslason (GVG)
  • Helga Ingólfsdóttir (HI)
  • Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ).

Fundinn sat einnig Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð og Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðamála hjá Strætó.


1. Greiðslukerfið - staðan

Daði Áslaugarson, deildarstjóri upplýsingatækni, kom á fundinn og fór yfir stöðuna á nýja greiðslukerfinu sem gengur undir nafninu Klapp. Prófanir innanhúss hafa verið í gangi og gengið ágætlega. Stefnt er að því að hefja prófanir með hópi viðskiptavina utanhúss í næstu viku. Niðurstöður þeirra prófana munu leiða í ljós hvort greiðslukerfið verður tekið í notkun í október eða nóvember 2021.


2. Innra eftirlit

Elísa Kristmannsdóttir, deildarstjóri fjármála, kom á fundinn og kynnti hvernig innra eftirliti er háttað hjá Strætó. Sérstaklega hefur verið skoðuð áhætta tengd peningabaukum í vögnum.

Farið var yfir úttektir sem framkvæmdar hafa verið. Greiðslur með peningum hafa farið minnkandi og í ljósi þess er það vilji stjórnar að hætt verði að taka við peningum sem greiðslumáta í strætisvögnum fljótlega á árinu 2022 eða þegar næsti fasi greiðslukerfisins verður tekinn í notkun. Almennt var farið yfir hvernig eftirlitsaðgerðir eru framkvæmdar, svo sem stjórnendaeftirlit.


3. Lántaka Strætó 2021

Á 340. fundi stjórnar Strætó bs. þann 21.5.2021 samþykkti stjórn að heimila framkvæmdastjóra að sækja um lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 400 m.kr. til grænnar fjárfestingar í rafmagnsvögnum. Samþykkt stjórnar var staðfest á eigendafundi Strætó bs. þann 15.6.2021.

Lánasjóður sveitarfélaga hefur samþykkt lán til Strætó að fjárhæð allt að 400 m.kr. Lánið er til 8 ára, vextir eru fastir 4,5%, einungis greiðast vextir fyrstu sex árin og höfuðstóll lánsins greiðist með jöfnum greiðslum á síðari tveimur árum lánstímans.

Framkvæmdastjóra var falið að óska eftir útreikningum frá Lánasjóði sveitarfélaga miðað við 5ra ára lánstíma, annars vegar miðað við jafnar greiðslur og hins vegar jafnar afborganir.


4. Fjárhags- og starfsáætlun 2022-2026

Framkvæmdastjóri og deildarstjóri fjármála fóru yfir drög að fjárhags- og starfsáætlun Strætó 2022-2026. Gert er ráð fyrir að tekjur verði í samræmi við tekjuáætlun 2019. Launakostnaður hefur hækkað mikið sem skýrist af kjarasamningshækkunum og vinnutímastyttingu vaktavinnufólks sem áætlað er að kosti um 350 m.kr. á ári.

Töluverð óvissa er um útkomu ársins 2021 en samkvæmt nýjustu útkomuspá er gert ráð fyrir tapi upp á um um 450 m.kr. á árinu. Skýrist það að mestu af lækkun farþegatekna um rúmar 200 m.kr. og að sérstakt Covid framlag ríkisins verður um 120 m.kr. sem er mun 780 m.kr. lægra framlag en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Á móti er áætlað að hagræðingaraðgerðir skili um 275 m.kr. lækkun rekstrarkostnaðar á árinu.

Stjórn fól framkvæmdastjóra að boða til eigendafundar þar sem fyrirliggjandi drög að fjárhags- og starfsáætlun byggðasamlagsins 2022- 2026 verða kynnt.

Gunnar Valur Gíslason vék af fundinum kl. 11:50


5. Leiðakerfismál

Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að útfærslu pöntunarþjónustu í Gufunesi.

Stjórn samþykkir að koma á fót pöntunarþjónustu í samræmi við framlagða tillögu og að unnið verði að útfærslu hennar með Reykjavíkurborg.

Helga Ingólfsdóttir vék af fundinum kl. 12:30


6. Önnur mál

Anton Björn Markússon lögmaður félagsins, kom á fundinn og fór yfir útistandi mál í tengslum við starfslok starfsmanns hjá félaginu.

Fundi slitið kl. 13:00


7. Fylgiskjöl

Engin fylgiskjöl