Fréttir
23. nóv. 2022

Vinningshafar Norrænu hönnunarverðlaunanna á sviði almenningssamgangna

Norrænu hönnunarverðlaunin á sviði almenningssamgangna voru veitt í fyrsta sinn á ráðstefnunni InformNorden á fimmtudaginn síðastliðinn. Norðurlöndin gátu tilnefnt tvö verkefni, annað á sviði stafrænnar þjónustu og leiðarvísa og hitt á sviði aðgengismála í víðu samhengi. Dómnefndin kom frá þeim Norðurlöndum sem tóku þátt í ráðstefnunni. Í dómnefnd voru: Suss Forssman Thullberg, Svíþjóð/SL, Sian Ambrose, Noregi/Ruter, Kim Gjedsted, Danmörku/Movia, Eeva Jakobsson, Finland/HSL and Kamilla Dögg Guðmundsdóttir, Íslandi/Strætó.

Metro fyrir alla

Í flokknum aðgengismál í víðu samhengi verðlaunaði dómnefndin SL í Stokkhólmi fyrir verkefnið „C30 Metro – Metro fyrir alla“. SL byggði nýja lest, C30, sem var byggð á upplifun/mati viðskiptavina með ólíkar þarfir og líkan af lest í fullri stærð var smíðað þar sem hægt var að sjá fyrir sér og meta tillögur að lausnum áður en fjöldaframleiðsla hófst.

Í umsögn dómnefndar segir:

Besta dæmið um hvernig hönnunarferli sem knúið er áfram af þátttöku og upplifun viðskiptavina, leiðir til farartækis þar sem hönnunarþættir og stafrænar lausnir skapa lest fyrir alla í raunheimum.

Meiri sveigjanleiki til og frá vinnu

Í flokknum stafræn þjónusta og leiðarvísar verðlaunaði dómnefndin HSL í Helsinki fyrir verkefnið þeirra „Meiri sveigjanleika til og frá vinnu“ með endurnýjuðum samgöngukjörum HSL. HSL byrjaði að bjóða upp á þjónustu undir nafninu B2B þar sem atvinnurekendur geta veitt starfsfólki sínu afsláttarkjör á almenningssamgöngum til og frá vinnu á HSL svæðinu. Starfsfólk getur notað miðana sína í HSL appinu og er reikningurinn sendur til atvinnurekanda.

Í umsögn dómnefndar segir:

Besta dæmið um hvernig viðskiptamiðuð, stafræn lausn eykur bæði einfaldleika og hagkvæmni í samgöngum. Og mikilvægast af öllu, lausn sem eykur fjölda ferðalanga og gera almenningssamgöngum kleift að vaxa í umhverfi í „Nýja Norminu“ eftir Covid.

Hönnun er stór þáttur bæði í raunheimum almenningssamgangna og þeim stafrænu og miðar að því að gera þjónustuna aðgengilegri, þægilegri og fallegri fyrir notendur. Það er því fyrir löngu tímabært að gera þessum málaflokki hátt undir höfði og veita norræn hönnunarverðlaun á sviði almenningssamganga. Vonandi tryggja verðlaunin sig í sessi og verða árlegur viðburður á InformNorden ráðstefnunni.