Fréttir
9. sept. 2022

Strætóvinir frá Englandi með köttinn Strætó!

Strætó á vini alls staðar að.


Þau Verity og Christian Graham eru sko aldeilis sannir Strætóvinir, þau dýrka Ísland og finnst fátt skemmtilegra en að rúnta um í strætó þegar þau koma til landsins en þau eru bæði frá Englandi. Til merkis um aðdáun þeirra á Strætó þá nefndu þau köttinn sinn Strætó. Þau segjast hafa ákveðið nafnið í einni af heimsóknum sínum til landsins en þau eiga tvo ketti og heitir hinn Bjarki. Christian hefur komið þrettán sinnum til landsins og Verity ellefu sinnum.

Í síðustu ferð þeirra hingað til lands höfðu þau samband við Strætó og báðu um varning merktan Strætó. Það var sjálfsagt að verða við bón þeirra og bera þau derhúfur Strætó með prýði og kötturinn Strætó virðist líka vel við una miðað við myndina sem þau sendu af honum.

Hjónin segjast heltekin af Íslandi og landið sé uppáhaldsstaðurinn þeirra í öllum heiminum. Þau eru bæði að læra íslensku en segja málið frekar erfitt. Þau trúlofuðu sig líka á Íslandi, í Grímsey árið 2020 eftir að hafa varið sumrinu á Egilsstöðum.