Nýir samningar við Hagvagna og Kynnisferðir
Í gær var stigið stórt skref í átt að kolefnislausum flota árið 2030 þegar nýir samningar voru undirritaðir við Hagvagna og Kynnisferðir um akstur strætisvagna.
Þann 29. apríl sl. ákvað stjórn Strætó að ganga til samninga við þessi fyrirtæki þar sem þau buðu lægst í verkið og skiluðu inn lokatilboðum.
Í nýja útboðinu var gerð krafa um að vagnafloti akstursaðila verði orðinn kolefnislaus í lok árs 2029 en það er í takt við markmið Strætó um kolefnislausan flota árið 2030. Um er að ræða 70 vagna og með eðlilegri endurnýjun á vagnaflota Strætó á þetta markmið að nást.
„Við hjá Strætó erum mjög ánægð með þennan samning sem styður okkar markmið um kolefnislausan flota,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Við höfum þegar fest kaup á níu rafvögnum og er samningurinn annað skref í átt að þessu mikilvæga markmiði.“