Við erum stolt af því að Strætó sé með jafnlaunavottun enda viljum við sem vinnustaður stuðla að jafnrétti, segir Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó í tilefni þess að Strætó hlaut endurvottun á jafnlaunakerfi sínu frá Versa vottun. Vottunin er staðfesting þess að jafnlaunakerfi fyrirtækisins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.

Strætó fékk skírteini þessu til staðfestingar á kvennafrídeginum þann 24. október sl. en Strætó hlaut fyrstu jafnlaunavottunina á þessum degi árið 2019. Sigríður segir það ánægjulegt að staðfestingin hafi borist á sjálfum kvennafrídeginum. „Það skiptir máli að fyrirtæki og stofnanir leggist á eitt og stuðli að jafnari vinnumarkaði. Einn liður í því er að fá jafnlaunavottun.“

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2018. Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Rósa Guðmundsdóttir, gæða- og verkefnastjóri Strætó og Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó með jafnlaunavottunina
Rósa Guðmundsdóttir, gæða- og verkefnastjóri Strætó og Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó með jafnlaunavottunina