Fréttir
1. feb. 2022

Staðsetningar á rafskútum og loftgæði í rauntíma

Eftirfarandi nýjungar hafa verið innleiddar á nýjan vef Strætó.


Staðsetningar og rafhlöðustaða á rafskútum

Staðsetningar á rafskútum frá fyrirtækjunum Hopp, OSS og ZOLO eru nú sýnilegar á gagnvirku korti síðunnar. Rafskúturnar eru túlkaðar með ljósgrænum, appelsínugulum og gulum punktum á kortinu.

Þegar smellt er á punktana þá sést hvaða fyrirtæki hjólið tilheyrir og hver staðan er á rafhlöðunni. Strætó leggur mikla áherslu á vistvænar samgöngur í hvaða mynd sem er og þessi viðbót mun auka upplýsingagjöf til bíllausra.


Loftgæði í rauntíma

Tengingu við loftgæðamælistöðvar á vegum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlita Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar hefur verið komið á.

Á gagnvirka kortinu er hægt að smella á þessar mælistöðvar til þess að skoða loftgæði á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og á fleiri stöðum.  Gildin sem eru sýnd á síðunni eru styrkur svifryks (PM10) og styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) en slíka mengun í þéttbýli má að mestu rekja til bílaumferðar.

  • Helsti áhættutími svifryks (PM10) er í mars og apríl þegar höfuðborgarsvæðið og önnur þéttbýli á landinu eru að koma undan vetri.
  • Köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un (NO2) í þéttbýli kem­ur að mestu leyti frá út­blæstri bif­reiða og er þessi mengun algeng í yfir vetrartímann.

Mikil loftmengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs eða svifryks getur valdið ertingu í lungum og öndunarvegi. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum eða með undirliggjandi lungnasjúkdóma geta upplifað mikla öndunarerfiðleika og þurfa jafnvel að leita læknisaðstoðar.

Hvílum bílinn á „gráum dögum“.

Yfir síðastliðin ár hefur Strætó hvatt til notkunar á vistvænum samgöngumátum á „gráum dögum“ eða þegar líkur eru á að loftgæði mælast yfir heilsuverndarmörkum.

Ákveðin veðurskilyrði gera það að verkum loftmengun mælist yfir heilsuverndarmörkum, eins og þegar það eru stillur og þurrt í lofti. Ástandið verður yfirleitt  verst við stórar umferðaræðar þar sem mengunin safnast upp vegna lítillar hreyfingar á loftinu.

Veðurskilyrðin á „gráum dögum“ eru því ákjósanleg til þess að skilja bílinn eftir heima og nota vistvænar samgöngur.