Á morgun hefst Evrópsk samgönguvika sem stendur yfir frá 16. – 22. september. Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í þessu samstillta átaki með sveitarfélögum í Evrópu og hefur Strætó verið með frá upphafi.
Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja fleiri í að nota fjölbreytta, vistvæna ferðamáta.
Kynntu þér allt um samgönguvikuna á: Facebook síðu samgönguviku
Fjölbreyttir viðburðir verða á dagskrá í samgönguvikunni:
Þriðjudagur, 19. september kl. 17-19.
BMX-hátíð á Miðbæjartorginu í Mosfellsbæ. BMX BRÓS verða með orkumikla sýningu og í kjölfarið bjóða þeir upp á skemmtilegt hjólanámskeið þar sem þátttakendur leysa krefjandi hjólaþrautir, fá kennslu í grundvallaratriðum og enda svo á tímatöku. Muna að taka hjól og hjálm með.
Miðvikudagur, 20. september kl. 15-17.
Dr. Bæk á Miðbæjartorgi í Mosfellsbæ. Allir hjólaeigendur eru hvattir til að koma með hjólin sín í fría ástandsskoðun hjá Dr. Bæk. Doktorinn kemur með farandskoðunarstöðina sína, pumpu, olíur og nokkra skiptilykla. Hann skoðar hjólin og vottar heilsu þeirra.
Föstudagur, 22. september
Bíllausi dagurinn 22. september – Frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu og með landsbyggðarstrætó. Allir eru hvattir til að hvíla bílinn og nota vistvæna ferðamáta.
Nánar má lesa um átakið á www.mobilityweek.eu.