Borgin gerir þjónustusamning við Strætó


Næturstrætó mun hefja akstur innan Reykjavíkurborgar aðfaranótt laugardags þann 25. febrúar og aka skv. áætlun.

Reykjavíkurborg hefur gert þjónustusamning við Strætó bs um að hefja akstur næturstrætó eingöngu innan borgarinnar. Næturstrætó mun aka úr miðbæ Reykjavíkur skv. tímaáætlun.

Borgin er með þessu að svara ákalli um bættar samgöngur í miðbænum um helgar en ekki náðist samstaða í stjórn Strætó um að hefja aftur akstur næturstrætó. Reykjavíkurborg bar því fram tillögu fyrir stjórn Strætó um að Strætó annist þjónustu fyrir íbúa borgarinnar og bjóði upp á næturstrætó sem eingöngu gengur í Reykjavík. Stjórn Strætó samþykkti þessa tillögu en allur kostnaður vegna þjónustunnar mun falla á Reykjavíkurborg.

Fjórar næturleiðir munu aka frá miðbænum og út í úthverfi Reykjavíkur, þ.e. Breiðholt, Úlfarsárdal, Norðlingaholt og Grafarvog.

  • Næturstrætó ekur úr miðbæ Reykjavíkur á aðfaranóttum laugardags og sunnudags.
  • Aðeins er hægt að taka næturstrætó á leið úr miðbænum en ekki til baka í átt að miðbænum.
  • Vagnarnir aka ekki skv. hefðbundinni tímatöflu. Eingöngu er gefinn upp brottfaratími úr miðbænum og vagnarnir aka inn í hverfin án þess að tímajafna.
  • Viðskiptavinir sem ætla að nýta vagninn á miðri leið er bent á að fylgjast með staðsetningu vagna í rauntíma í Klapp appinu eða inn á straeto.is

 

Fargjöld í næturstrætó

Stakt fargjald í næturstrætó er 1100 kr. en það jafngildir tvöföldu fargjaldi. Hægt er að kaupa sérstaka næturmiða í Klapp greiðslukerfi en eftir sem áður geta handhafar mánaðar- og árskorta notað kortin sín um borð í næturstrætó. Ekki verður hægt að greiða með greiðslukorti um borð í næturstrætó þar sem næturmiði er keyptur í gegnum Klapp greiðslukerfi. Jafnframt er hægt að borga með reiðufé.