Frá því að nýtt greiðslukerfi Strætó, Klappið, var tekið í notkun fyrir rúmlega ári síðan hafa verið virkjaðir hátt í hálf milljón aðganga og daglegar skannanir hlaupa á tugum þúsunda.
Virkjaðir notendaaðgangar sem eru opnir í Klapp kerfinu í dag eru 473.888 talsins miðað við tölur teknar saman þann 6. febrúar sl. Það eru bæði auðkenndir og nafnlausir aðgangar.
Frá því að kerfið var tekið í notkun, 16. nóv. 2021, til dagsins í dag hafa 537.429 aðgangar verið skráðir og staðfestir í kerfið, þar af hefur 63.541 verið eytt, þar sem um var að ræða t.d. tvöfaldar skráningar eða nafnlausa eða auðkennda aðganga sem eytt var eftir notkun.
Dagleg notkun í Klappinu
Klapp fargjöld eru skönnuð farsællega 33.000 sinnum að jafnaði á dag á virkum dögum.
JANÚAR 2023
Klapp app | Klapp kort | Klapp tíur | |
---|---|---|---|
100.000 stakir miðar farsællega skannaðir | 3.000 stakir miðar farsællega skannaðir | 12.000 skannanir | |
5.500 manns með virka mánaðaráskrift | 2.300 manns með virka mánaðaráskrift | ||
3.500 virk árskort | 3.500 virk árskort |
Á áætlun
Ákveðið var að ráðast í gerð nýs greiðslukerfis með FARA sem er alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur reynslu af því að setja upp samskonar greiðslukerfi fyrir fyrirtæki í almenningssamgöngum. Ljóst var frá byrjun að þó svo að kerfið væri byggt á ákveðnum grunni þyrfti ávallt að sníða það að þörfum Strætó og viðskiptavina þess. Í byrjun komu fram ákveðnir hnökrar sem þurfti að bregðast við. Kerfið er í stöðugri þróun þar sem þarfir viðskiptavina Strætó eru ávallt settir í forgang og framundan eru margar nýjungar og uppfærslur í kerfinu sem spennandi verður að segja frá á komandi mánuðum. Ánægjulegt er að segja frá því að verkefnið stenst upphaflega kostnaðaráætlun en farið var í útboð skv. opinberum kaupum á EES svæðinu.
Uppitími kerfisins yfir 99,99%
Það hefur því miður komið fyrir nokkrum sinnum að greiðslukerfið hefur dottið út í einhvern tíma og viðskiptavinir ekki getað nýtt sér það, til dæmis til að kaupa miða eða skanna miða um borð í vögnum. Á síðustu sex mánuðum (ágúst – jan) hefur kerfið farið niður sex sinnum, frá tæpum 30 mínútum til tveggja klukkutíma. Undantekningin frá þessu var 18. október sl. þegar viðskiptavinir gátu ekki keypt nýjar vörur en það stóð yfir í rúmlega tíu klukkustundir sem skýrist af því að nóttin var þar inn í. Uppitími er þrátt fyrir það afar góður, eða yfir 99.99%.
Erlend kortavelta mest yfir sumarið
Klapp greiðslukerfið styður að tekið sé við erlendum greiðslukortum og hægt er að skrá erlend Visa og MasterCard kort ef þau eru með 3D Secure, sama gildir um innlend kort.
Þegar hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu í Klapp kerfinu er skoðað má sjá að hún er hæst yfir sumarmánuðina en í hverjum mánuði er erlend kortavelta að meðaltali um 13% af heildarkortaveltu í Klapp kerfinu. Líklegt er að þessi tala muni hækka þegar snertilausar greiðslur koma til framkvæmda enda mikið um keyptar stakar ferðir hjá ferðamönnum sem heimsækja Ísland.
Mars | 11,00% |
Apríl | 12,60% |
Maí | 13,00% |
Júní | 17,40% |
Júlí | 23,20% |
Ágúst | 12,10% |
September | 9,00% |
Október | 10,00% |
Nóvember | 9,2% |
Desember | 12,5% |
Meðaltal | 13,00% |