Fréttir
11. nóv. 2022

Upplýsingatækniþróun og betri almenningssamgöngur á InformNorden

Ráðstefnan InformNorden verður haldin í Reykjavík dagana 16. – 18. nóvember nk. Ráðstefnan er haldin til skiptis í Norðurlöndunum, en í ár er hún haldin á Hilton Reykjavík Nordica og sér Strætó um skipulagningu og utanumhald.

Hin árlega InformNorden ráðstefna er kennileiti í norrænum ITS (Intelligent Transportation Systems) heimi og er þekkt fyrir að vera leiðandi umræðuvettvangur um áskoranir á sviði upplýsingatækni og betri almenningssamgöngur á norrænum sem og alþjóðlegum markaði. Margar kynslóðir upplýsingatækniþróunar í almenningssamgöngum hafa verið kynntar til sögunnar á InformNorden, svo sem mismunandi fargjaldakerfi, kerfi sem snúa að upplýsingum fyrir farþega, skipulagskerfum og hönnun.

Að þessu sinni er ráðstefnan tvöföld, því ráðstefnan Nordisk Lokaltraffik er haldin samhliða. Þar er áherslan á almenningssamgöngur í víðu samhengi, svo sem Borgarlínuverkefni (BRT), umhverfismál og áhrif áfalla eins og Covid á almenningssamgöngugeirann.

Fyrirlesarar eru margir og mismunandi en allir sérfræðingar á sínu sviði og/eða stjórnendur almenningssamgangna í borgum eins og Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Osló, Helsinki og Reykjavík auk fleiri góðra gesta. Hægt er að sjá dagskrá ráðstefnunnar hér: https://informnorden.org/agenda/

Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir bæði vélbúnaðar- og hugbúnaðarbirgja í greininni sem og þá sem stýra almenningssamgöngum á Norðurlöndum. Sköpun og viðhald tengslaneta milli hagsmunaaðila úr öllum geirum almenningssamganga hefur því alltaf verið eitt helsta einkenni ráðstefnunnar og er það enn í Reykjavík 2022.

Norræn hönnunarverðlaun á sviði almenningssamgangna

Í ár verða í fyrsta sinn veitt verðlaun fyrir framúrskarandi hönnun á ráðstefnunni. Öll Norðurlöndin tilnefna tvö verkefni, annað á sviði stafrænnar þjónustu og leiðarvísa og hitt á sviði aðgengismála í víðu samhengi. Vinningshafar verða tilkynntir fimmtudaginn 17. nóvember á ráðstefnunni.

Hönnun er stór þáttur, bæði í raunheimum almenningssamgangna og þeim stafrænu og miðar að því að gera þjónustuna aðgengilegri og fallegri fyrir notendur. Það er því fyrir löngu komið að því að gera þessum málaflokki hátt undir höfði og vonandi tryggja verðlaunin sig í sessi og verða árlegur viðburður á InformNorden ráðstefnunni.