Síðustu daga hefur Klapp, greiðslukerfi Strætó orðið fyrir barðinu á netárásum.


Um er að ræða svokallaða dreifða álagsárás eða DDoS árás sem þýðir að gríðarmiklum fjölda af fyrirspurnum er beint á kerfið og vefþjónar kikna tímabundið undan álagi. Nýjasta árásin var gerð í dag, laugardag kl. 13:50 og hún stóð yfir í ca. 90 mínútur. Á meðan á árásinni stóð komust viðskiptavinir til að mynda ekki inn á Klapp-appið eða vefaðganginn sinn á „Mínum síðum“ til að kaupa eða skoða stöðu fargjalda. Skönnun farmiða í vögnum varð einnig óáreiðanleg á sama tíma.

Norska fyrirtækið FARA AS sem heldur úti undirliggjandi hugbúnaði Klappsins og vélbúnaði kerfisins segir að gripið verði til aðgerða til þess að reyna að koma í veg fyrir að slíkar árásir lami greiðslukerfið. Strætó og FARA harma þau óþægindi sem viðskiptavinir hafa orðið fyrir vegna árásarinnar.

Við vekjum athygli á að þessi DDoS árás á ekkert sameiginlegt með netárásinni sem Strætó varð fyrir í lok árs 2021 þegar brotist var inn í netkerfi Strætó og ýmsum gögnum stolið.