Þann 1. október mun ný gjaldskrá Strætó taka gildi. Gjaldskráin var samþykkt á fundi stjórnar félagsins 16. september sl. og nemur hækkunin 12,5 %. Stök fargjöld og tímabilskort munu öll taka sömu verðbreytingu. Sem dæmi má nefna að stakt fargjald fer úr 490 kr. í 550 kr. og 30 daga nemakort fer úr 4.000 kr. í 4.500 kr.

Gjaldskráin hefur verið óbreytt síðan um áramótin 2020/2021 en þann 16. nóvember 2021 var Klapp, rafrænt greiðslukerfi Strætó innleitt og öll gjaldskráin einfölduð til að vera sanngjarnari og veita viðskiptavinum jafnari kjör á fargjöldum.

Verðhækkunum er ætlað að mæta almennum kostnaðarverðshækkunum á aðföngum Strætó svo sem olíuverðshækkunum, en olíuverð hefur hækkað um tæp 40% frá áramótum og kostnaði vegna vinnutímastyttingar, sem hefur haft veruleg áhrif á reksturinn. Áhrifa heimsfaraldurs COVID  gætir enn í rekstrinum og útlit fyrir að uppsöfnuð áhrif á tekjur séu á bilinu 1500 m.kr. til 2000 m.kr. Áhrifa hækkandi aðfangaverðs og lægri tekna má sjá í árshlutauppgjöri Strætó fyrir janúar til júní 2022.

Ávallt er reynt að stilla öllum verðhækkunum Strætó í hóf og er hækkuninni ætlað að draga úr þörf á frekari hagræðingu í leiðarkerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt munu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skoða að styrkja rekstur Strætó frekar en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2022.

Strætó hefur sett sér stefnu um kolefnislausan flota árið 2030 og með því verða áhrif olíuverðs óveruleg á rekstur Strætó.

Miðað við útreikninga FÍB um rekstrarkostnað þess að reka bíl, er hann um 1,3 milljónir á ári miðað við að eknir séu 15.000 km á ári og því ljóst að enn er mun hagstæðara að nota almenningssamgöngur.

Gjaldskrárbreyt­ing­arn­ar taka til þjón­ustu Strætó á höfuðborgarsvæðinu en ekki til akst­ursþjón­ustu fyr­ir fatlað fólk en þar verða eng­ar breyt­ing­ar á gjald­skrá.

Ný gjaldskrá tekur gildi 1. október næstkomandi.

Gjaldskrá Strætó 1. okt. 2022

Stök fargjöld
Fullorðnir550 kr.
Ungmenni275 kr.
Aldraðir275 kr.
Öryrkjar165 kr.
Börn, 11 ára og yngri0 kr.
Tímabilskort
30 daga12 mánaða
Fullorðnir9.000 kr.90.000 kr.
Ungmenni4.500 kr.45.000 kr.
Aldraðir4.500 kr.45.000 kr.
Öryrkjar2.700 kr.27.000 kr.
Börn, 11 ára og yngri0 kr.0 kr.
Klapp tíur 
Verð
Klapp 10 Fullorðnir5.500 kr.
Klapp 10 Aldraðir2.750 kr.
Klapp 10 Ungmenni2.750 kr.
Plastkort
Verð
Klapp kort1.000 kr.
Dagpassar
Verð
24 klst.2.200 kr.
72 klst.5.000 kr.